Körfubolti

Írsk-bandarískur liðsstyrkur til KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brian Fitzpatrick lék með Haukum á þarsíðasta tímabili.
Brian Fitzpatrick lék með Haukum á þarsíðasta tímabili. vísir/vilhelm

KR, sem situr í fallsæti í Subway-deild karla í körfubolta, hefur samið við Brian Fitzpatrick um að leika með liðinu út tímabilið. Þessi 33 ára kraftframherji eða miðherji er fæddur í Bandaríkjunum en er með írskt vegabréf.

KR-ingum veitir ekki af liðsstyrk enda eru þeir aðeins búnir að vinna einn leik af níu í Subway-deildinni og eru fjórum stigum frá öruggu sæti.

Þetta er annað stopp Fitzpatricks á Íslandi en hann lék með Hauka tímabilið 2020-21. Hann var þá með 14,1 stig, 10,0 fráköst og 2,1 stoðsendingu að meðaltali í leik. Hann hitti úr 58,5 prósent skota sinna inni í teig og 33,8 prósent fyrir utan þriggja stiga línuna.

Fitzpatrick kemur til KR frá Bashkimi sem leikur í kósóvósku úrvalsdeildinni. Hann hefur einnig leikið í Grikklandi, Danmörku, Japan, Tékklandi, Svíþjóð, Argentínu og Úkraínu.

Fitzpatrick gæti leikið sinn fyrsta leik með KR þegar liðið fær Tindastól í heimsókn annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×