Handbolti

„Það hefði verið gaman að komast í tuttugu mörkin“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Rafn Eiðsson var magnaður í KA-húsinu.
Einar Rafn Eiðsson var magnaður í KA-húsinu. S2 Sport

KA-maðurinn Einar Rafn Eiðsson átti stórleik í Olís deild karla í gær þegar hann skoraði sautján mörk á móti Gróttu.

Einar skoraði sjö markanna sinna úr vítum en tíu þeirra komu í opnum leik. Hann þurfti aðeins tuttugu skot til að skora öll þessi mörk og var því með 85 prósent skotnýtingu.

Stefán Árni Pálsson heyrði í markaskoraranum í hádegisfréttunum á Bylgjunni. En var þetta besti leikurinn hans á ferlinum?

„Hvað varðar markaskor jú. Ég hafði náð mest fjórtán mörkum áður en sautján er svolítið önnur tala,“ sagði Einar Rafn Eiðsson.

„Ég var bara í núinu og lét bara vaða. Þeir voru ekkert að vaða út í mig og mér fannst ég vera heitur. Ég lét bara vaða,“ sagði Einar Rafn um leikinn.

Finnur maður það í byrjun leiks þegar allt er inni hjá manni?

„Já og nei. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Maður reynir alltaf að láta leikinn koma til sín,“ sagði Einar.

„Það hefði verið gaman að komast í tuttugu mörkin og svo hefði verið frábært að vinna leikinn. Það er annað mál,“ sagði Einar Rafn en KA og Grótta gerðu 33-33 jafntefli í leiknum.

Er pirrandi að skora sautján mörk en ná bara í eitt stig?

„Það var alveg svekkjandi. Ekki kannski pirrandi en meira svona svekkjandi hvernig við köstuðum þessu frá okkur,“ sagði Einar.

„Ég skil ekki af hverju við vorum að drífa okkur svona mikið eftir að þeir skora síðasta markið sitt. Auðvelt að segja það núna en við fengum frábært færi og ef við hefðum skorað úr því þá hefðu allir verið sáttir,“ sagði Einar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.