Handbolti

„Ekki margir sem gera sér grein fyrir hversu andlega sterkur Ómar er“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon er einn fremsti handboltamaður heims um þessar mundir.
Ómar Ingi Magnússon er einn fremsti handboltamaður heims um þessar mundir. vísir/hulda margrét

Einar Guðmundsson, fyrrverandi þjálfari yngri landsliða Íslands í handbolta, segir að það hafi alltaf verið ljóst að Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins 2021, myndi komast í fremstu röð.

Einar er Selfyssingur líkt og Ómar og þjálfaði hann í yngri flokkum Selfoss og í yngri landsliðum Íslands, meðal annars U-18 ára liðinu sem lenti í 3. sæti á HM í Rússlandi 2015. Hann sagði alltaf ljóst í hvað stefndi með Ómar.

„Ég bjóst alltaf við þessu. Ómar Ingi er mjög sérstakur, hann er „special talent“. Hann hefur þessa ofboðslegu íþróttagreind og var rosalega góður í öllum íþróttum. Hann er líka rosalega andlega sterkur. Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því,“ sagði Einar í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar.

„Það fer ekki mikið fyrir honum en hann er ofboðslega andlega sterkur, ofboðslega góður þegar þarf og ofboðslega góður í mikilvægum leikjum. Hann hefur eiginleika sem mjög fáir hafa.“

Ómar varð Þýskalandsmeistari með Magdeburg á síðasta tímabili og var næstmarkahæstur í þýsku úrvalsdeildinni. Tímabilið þar á undan varð hann markakóngur deildarinnar. Ómar var svo markakóngur EM 2022 þar sem Ísland endaði í 6. sæti.

Hlusta má á hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.