Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar um stöðu kjarasamningsviðræðna nú þegar innan við tveir sólarhringar eru eftir af nóvembermánuði. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR hefur sömuleiðis sagt í dag að hann telji ólíklegt að gengið verði frá samningum fyrir fimmtudag.
Sólveig Anna segist vilja vera bjartsýn um að skrifað verði undir samninga við Eflingu hratt örugglega en hún vilji einnig vera raunsæ. Samninganefnd verkalýðsfélagsins fer fram á 56.700 króna launahækkun auk fimmtán þúsund króna framfærsluuppbótar í viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins.
Efling, sem hingað til hefur stefnt á samning til þriggja ára, breytti um stefnu í morgun og býður nú skammtímasamning til rúms eins árs.
„Þetta tilboð er sett fram sem viðbragð við málflutningi Samtaka atvinnulífsins á samningafundi sem við sátum í gær, þar sem fram kom með skýrum hætti að raunverulega það eina sem kæmi í veg fyrir það að hægt væri að ganga að kröfugerð okkar væri tímalengdin sem við fórum fram á. Við vildum gera þriggja ára langan samning,“ sagði Sólveig Anna í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Eftir það hafi samninganefnd Eflingar komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki grundvallaratriði að gera langan samning heldur frekar að fá góðan samning „án þess að þurfa að eyða endalausum tíma í að vera í átökum um eitthvað sem að öllum líkindum við myndum ekki ná í gegn.“
Sólveig Anna segir þetta hófstilltan samning sem byggi á nálgun Lífskjarasamningsins sem hafi verið góður samningur fyrir verka- og láglaunafólk auk atvinnurekenda.
Hlusta má á viðtalið við Sólveigu Önnu Jónsdóttur í heild sinni í spilaranum.