Skoðun

Hitaveitan þarf 1.200 megavött í viðbót

Bjarni Bjarnason skrifar

Það kemur sumum á óvart, sérstaklega þeim sem halda að orkuskipti snúist bara um rafmagn, að aflið í hitaveitum Veitna er næstum tvöfalt meira en í Kárahnjúkavirkjun. Mælt í megavöttum er afl Fljótsdalsstöðvar 690 MW en samanlagt afl þeirra hitaveitna sem Veitur starfrækja á sunnan- og vestanverðu landinu er nú um 1.200 MW. Og aflþörfin mun vaxa hratt.

Uppbygging hitaveitunnar tók hálfa öld

Hitaveitan í Reykjavík er orðin 92 ára gömul. Það var snemmvetrar 1930 að Austurbæjarskólinn í Reykjavík var tengdur heitavatnslögn úr Þvottalaugunum og orkuskipti í húshitun voru hafin. Þessi orkuskipti tóku um hálfa öld á höfuðborgarsvæðinu því það var fyrst á áttunda áratug síðustu aldar að segja má að hvert hús í Reykjavík hafi verið tengt hitaveitu. Síðan þá hafa ýmsar byggðir í landinu bæst í hópinn, nú síðast Höfn í Hornafirði. Langmesta viðbótin er þó á höfuðborgarsvæðinu en íbúafjöldinn hefur tvöfaldast frá árinu 1980, úr u.þ.b. 120 þúsund í um 240 þúsund, og öll viljum við hitaveitu.

Orkuskiptum í húshitun lýkur ekki meðan fólki fjölgar og nú stendur yfir sérstakt átak ríkisvalds og sveitarfélaganna til að hraða uppbyggingu á nýju íbúðarhúsnæði víða um land. Auðvitað vilja íbúar allra þessara nýju húsa hafa hitaveitu enda er hún mun ódýrari en rafkynding. Hitaveitan eykur lífsgæði allra sem hennar njóta, sérstaklega á Ísalandi þar sem allra veðra er von og veðurfar er hryssingslegt og kalt.

Notkun á heitu vatni á bara eftir að aukast. Spá Veitna fram til ársins 2060 gerir ráð fyrir tvöföldun notkunar á heitu vatni. Það þýðir að við þurfum að bæta 1.200 MW við hitaveituna fyrir árið 2060. Þá verða hitaveitur á suðvestanverðu landinu orðnar 2.400 MW að afli sem er ígildi þriggja til fjögurra títtnefndra Kárahnjúkavirkjana.

Á efri hluta myndarinnar er afl hitaveitna Veitna og stærstu rafmagnsvirkjunar landsins borið saman. Neðri hlutinn sýnir núverandi hámarksafköst hitaveitnanna og spá um aukna þörf sem byggir á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands.

Hvar er orkuna að finna?

Hvert eigum við að sækja orkuna til að viðhalda orkuskiptum í húshitun? Á höfuðborgarsvæðinu er nærtækt að líta til eldfjallanna í kringum okkur því þar hefur safnast upp varmaorka í þúsundir ára. Við nýtum nú þegar Hengilinn og háhitasvæði þar í kring. Þangað mætti sækja meiri orku, sérstaklega til húshitunar. Lághitasvæðin eru svo annar kostur og sá lang hagkvæmasti. Hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu sækir nú vatn frá Reykjum og Reykjahlíð í Mosfellssveit, Laugarnesi og Elliðaárdalnum. Lághitasvæðin sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir tæplega helmingi af öllu vatni hitaveitunnar. Rúmur helmingur kemur frá virkjunum OR í Hengli.

Það er ljóst að höfuðborgarsvæðið þarf að horfa til allra kosta til þess að auka við hitaveituna. Unnið er að rannsóknum nýrra lághitasvæða og nokkur háhitasvæði í Henglinum eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun 3, sem samþykkt var á Alþingi í sumar. Svæðin í Henglinum munu öll fara í að viðhalda afköstum virkjananna á Nesjavöllum og á Hellisheiði og til að auka við afl hitaveitunnar. Lítið sem ekkert nýtt rafmagn mun koma frá þessum svæðum. Háhitasvæðin í Krýsuvík eru einu svæðin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sem eru ónýtt. Rannsóknir eru skammt á veg komnar og því óvissa um niðurstöður. Hitaveitur hafa forgang að jarðhitaauðlindum samkvæmt lögum, enda er um almannaheill að tefla. Því má gera ráð fyrir því að mikið af háhitanum í Krýsuvík fari til hitaveitu. Umframgeta mun nýtast til rafmagnsvinnslu. Einnig er vert að huga að því að Suðurnes kunni að hafa þörf fyrir varaafl í hitaveitu frá Krýsuvík ef virkjunin í Svartsengi verður fyrir truflun í rekstri vegna jarðhræringa eða eldgoss.

Varmanýtni virkjana

Virkjanir á háhitasvæðum eru af tvennum toga; þær sem einungis vinna rafmagn og þær sem vinna vatn til húshitunar, auk rafmagns. Virkjanir í Svartsengi, Nesjavöllum og Hellisheiði eru af síðari toganum, sem vinna bæði rafmagn og heitt vatn. Nýtni þess varma sem tekinn er úr jarðhitageyminum er einungis 13-16% ef rafmagn er unnið eitt og sér. Nesjavallavirkjun, svo dæmi sé tekið, nýtir hins vegar um 52% þess varma sem tekinn er upp vegna tvívirkni á notkun til húshitunar og rafmagns. Það er því ótvírætt að á háhitasvæðum nærri þéttbýli skuli einnig nýta varmaorkuna til húshitunar.

Námavinnsla á háhitasvæðum

Ég held að Stefán Arnórsson, prófessor emeritus í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, hafi fyrstur manna bent á að nýtingu háhitasvæða mætti líkja við námavinnslu. Jarðhitanáman væri þannig nýtt mun hraðar en endurnýjun hennar úr heitari jarðlögum að neðan gæti staðið undir. Nú hefur komið í ljós að flestar háhitavirkjanir á Íslandi búa við afar þröngan kost þar sem varminn í „námunni“ minnkar hraðar en gert var ráð fyrir. Þetta hefur Orkuveita Reykjavíkur séð á Nesjavöllum en þó einkum á Hellisheiði. Virkjunin þar framleiðir nærri þrefalt meira rafmagn og var byggð upp í núverandi stærð þrefalt hraðar en Nesjavallavirkjun. Enginn tími vannst því til að „hlusta á jarðhitakerfið“ og læra af reynslunni. Það dregur hratt niður í þeim jarðhitasvæðum sem áttu að duga Hellisheiðarvirkjun og við höfum að undanförnu þurft að leiða orku frá öðrum nálægum háhitasvæðum til að halda uppi fullri vinnslugetu virkjunarinnar.

Í Rammaáætlun III eru áform um allmikla raforkuvinnslu úr jarðhitanum í kringum höfuðborgarsvæðið. Við Orkuveitufólk teljum að það sé ekki raunhæft og að lítið viðbótarrafmagn muni koma frá þessum svæðum.

Forgangur hitaveitna um nýtingu

Í lögum um Rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu frá 1998 segir í 13. grein: „Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna jarðhita innan marka sveitarfélagsins vegna hitaveitu sem rekin er í sveitarfélaginu.“ Það er því ljóst að rafmagnsvinnsla á þeim háhitasvæðum sem liggja nálægt byggð verður ekki stunduð nema hitaveita hafi forgang.

Umræðan um orkumál snýst nú einkum um hugsanlegan rafmagnsskort í landinu og að það þurfi jafnvel að tvöfalda raforkuvinnsluna. Í nýtingarflokki Rammaáætlunar, sem eðlilegt er að fyrst sé horft til í leit að öllu þessu rafmagni, koma ⅔ hlutar megavattanna frá jarðhita og mikill meirihluti hans er á suðvesturhorninu. Lífsgæði koma ekki að sjálfu sér og enginn orkugjafi kemst nærri jarðhitanum hvað varðar hagkvæmni til húshitunar. Mikilvægt er að hugsa um orkumál til langs tímaog eins og hér hefur verið rakið þurfum við að hugsa um að háhitasvæðin í nágrenni við þéttbýli verði aðgengileg fyrir hitaveiturnar á næstu áratugum ef komandi kynslóðir eiga að njóta þeirra gæða sem við búum nú við.

Meira um rafmagnið í næstu grein.

Grein 1 af 3 um orkuskipti.

Höfundur er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×