Handbolti

Sex íslensk mörk dugðu ekki til gegn Kiel

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Daði Styrmisson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach í dag.
Hákon Daði Styrmisson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach í dag. Getty Images

Íslendingalið Gummersbach mátti þola þriggja marka tap er liðið heimsótti Kiel í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 31-28.

Guðjón Valur Sigurðsson og lærisveinar hans í Gummersbach hafa farið vel af stað í þýsku úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið B-deildina í vor. Liðið hefur hins vegar aðeins unnið einn af seinustu fjórum deildarleikjum sínum og þar af eru tvö töp í þessum fjórum leikjum.

Jafnræði var með liðunum lengst af í dag og þegar flautað var til hálfleiks var staðan jöfn, 14-14. Heimamenn í Kiel sigldu þó fram úr í síðari hálfleik og unnu að lokum sterkan þriggja marka sigur, 31-28.

Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson voru báðir í liði Gummersbach í dag og skoruðu þrjú mörk hvor. Liðið situr nú í áttunda sæti deildarinnar með 14 stig eftir 13 leiki, en Kiel situr í öðru sæti með 24 stig, einu stigi minna en topplið Füchse Berlin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.