Um er að ræða árlegan fögnuð Macy's sem haldinn var í 96. sinn en gangan var haldin fyrst árið 1924. Will Coss, aðalskipuleggjandi göngunnar, segir eina markmiðið vera að gleðja fólk út um gjörvallan heim.
Um þrjár milljónir manns mæta í gönguna á hverju ári en auk þess er hún sýnd á sjónvarpsstöðinni NBC þar sem allur heimurinn getur fylgst með. Á síðasta ári horfðu rúmlega tuttugu og fjórar milljónir manns á gönguna í sjónvarpinu. Þá hefur útsending frá fögnuðinum meðal annars hlotið Emmy verðlaun.
Stjörnur og uppblásnar fígúrur
Það er óhætt að segja að öllu hafi verið tjaldað til við gönguna í gær sem innihélt tuttugu og átta stórglæsilega vagna. Á þeim vögnum voru stjörnur á borð við Mariuh Carey, Jimmy Fallon, Jordin Sparks, Paulu Abdul, Adam Devine, Söruh Hyland, Mario Lopez, Seal Paul, Joss Stone og sjálfan jólasveininn.
Þá mátti einnig sjá fjölmargar uppblásnar fígúrur sem eru löngu orðinn fastur liður í göngunni. Um er að ræða risastórar blöðrur en það þarf allt að hundrað starfsmenn til þess að halda í hverja blöðru.










Fær ekki að vera drottning jólanna en mætti með kórónu
Gengið var meðfram Central Park og niður 6. breiðgötu. Göngunni lauk svo við flaggskip Macy's á 34. götu þar sem sjálf „drottning jólanna“ Mariah Carey flutti jólalag allra jólalaga All I Want for Christmas is You. Þá vakti sérstaka lukku þegar börn Carey, tvíburarnir Morrocan og Monroe, birtust skyndilega upp úr jólapökkum á bak við söngkonuna og dönsuðu með móður sinni.
Carey hefur undanfarið staðið í baráttu um titilinn „drottning jólanna“. Vildi hún gera titilinn að vörumerki sem hún ein hefði leyfi til að nota. Aðrar tónlistarkonur mótmæltu og fór málið svo að Carey fær ekki einkaleyfi fyrir titlinum, að minnsta kosti ekki í bili. Það verður því að teljast einstaklega táknrænt að Carey hafi mætt með kórónu á viðburðinn.
Atriðið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.