Handbolti

María sagði frá möntru pabba „kóngs“

Sindri Sverrisson skrifar
María Þórisdóttir bjó til þessa skemmtilegu mynd af sér og pabba sínum og birti á Instagram eftir að Þórir Hergeirsson vann enn eitt stórmótið í gær.
María Þórisdóttir bjó til þessa skemmtilegu mynd af sér og pabba sínum og birti á Instagram eftir að Þórir Hergeirsson vann enn eitt stórmótið í gær. @mariathorisdottir

Knattspyrnukonan María Þórisdóttir er skiljanlega stolt af pabba sínum, Þóri Hergeirssyni, sem orðinn er sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar.

Þórir stýrði Noregi til sigurs á EM kvenna í handbolta, þar sem liðið vann Danmörku í úrslitaleik í gær, og hefur þar með unnið flest gullverðlaun allra þjálfara á stórmótum í handbolta.

Í úrslitaleiknum í gær skoraði Danmörk fyrstu tvö mörkin og komst tvívegis fimm mörkum yfir í fyrri hálfleiknum, en staðan var 15-12 að honum loknum. Áfram hélt Danmörk frumkvæðinu þar til að um sjö mínútur voru eftir að Noregur komst yfir í fyrsta sinn, 24-23. Leikurinn endaði svo 27-25.

„Það gildir að vera yfir þegar leiknum lýkur.“ – tilvitnun sem pabbi hefur innprentað í hausinn á mér. Þú ert kóngur,“ skrifaði María á Twitter, og vísaði til þess hvernig úrslitaleikurinn þróaðist.

María er fædd í Noregi, sumarið 1993, og er dóttir Þóris og hinnar norsku Kirsten Gaard. Hún er því ekki öðru vön en að pabbi hennar vinni til verðlauna í desember ár hvert en Þórir var aðstoðarþjálfari norska landsliðsins frá árinu 2001, þegar María var átta ára, og þar til að hann varð aðalþjálfari árið 2009.

María spilaði sjálf bæði handbolta og fótbolta upp í meistaraflokk en valdi svo frekar fótboltann og er í dag leikmaður norska landsliðsins og Manchester United, eftir að hafa tvívegis orðið Englandsmeistari með Chelsea.

Þórir Hergeirsson glaðbeittur með Evrópumeisturunum sínum.EPA-EFE/ANTONIO BATFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.