Handbolti

Þórir tók Evrópumetið af Bengt og Breivik og heimsmetið af Onesta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson er sá sigursæltasti af landsliðsþjálfurum á stórmótum í handbolta.
Þórir Hergeirsson er sá sigursæltasti af landsliðsþjálfurum á stórmótum í handbolta. AP/Zsolt Czegledi

Þórir Hergeirsson tók til sína alls konar met með frábærum árangri sínum á Evrópumóti kvenna í handbolta sem lauk í gær.

Þórir gerði norska kvennalandsliðið að Evrópumeisturum í fimmta sinn í gær þegar Noregur vann 27-25 sigur á Danmörku í úrslitaleiknum.

Norska liðið var fjórum mörkum undir, 18-22, þegar seinni hálfleikur var um það til hálfnaður en vann síðustu sextán mínútur leiksins 9-3 og tryggði sér gullið.

Þórir bætti með þessu Evrópumet sem var áður í eigu tveggja kunna þjálfara en fyrir þetta mót var Þórir jafn þeim Bengt Johansson og Marit Breivik.

Bengt Johansson gerði sænska karlalandsliðið fjórum sinnum að Evrópumeisturum frá 1994 til 2002 en sænska landsliðið vann fjögur af fyrstu fimm Evrópumótum karla.

Marit Breivik jafnaði afrek Bengt þegar hún gerði norska kvennalandsliðið að Evrópumeisturum í fjórða sinn árið 2008. Það var jafnframt hennar síðasta mót með norska liðið.

Þórir hafði verið aðstoðarþjálfari Breivik frá 2001 og tók því beinan þátt í að vinna þrjú af þessum Evrópumótagullum.

Þórir jafnaði met þeirra Bengt og Breivik fyrir tveimur árum og bætti það í gær þegar norsku stelpurnar vörðu Evrópumeistaratitilinn sinn.

Þetta voru líka fjórtándu verðlaun norska kvennalandsliðsins á stórmótum undir stjórn Þóris og með því fór hann fram úr verðlaunasafni umræddar Marit Breivik.

Á meðan níu af fjórtán verðlaunum Þóris hafa verið gull þá voru bara sex af þrettán verðlaunum norska liðsins undir stjórn Breivik gullverðlaun.

Þórir er nú sá þjálfari sem hefur unnið flest gullverðlaun á stórmótum eða níu.

Þórir fór nefnilega fram úr Frakkanum Claude Oneste sem vann átta gullverðlaun sem þjálfari franska landsliðsins frá 2001 til 2016.

Norsku stelpurnar fagna sigri með því að lyfta Evrópubikarnum í gær.AP/Zsolt Czegledi
 • Flestir Evrópumeistaratitlar þjálfara:
 • 5 - Þórir Hergeirsson (Kvennalið Noregs 2010, 2014, 2016, 2020, 2022)
 • 4 - Bengt Johansson (Karlalið Svíþjóðar 1994, 1998, 2000 og 2002)
 • 4 - Marit Breivik (Kvennalið Noregs 1998, 2004, 2006, 2008)
 • 3 - Claude Onesta (Karlalið Frakklands 2006, 2010 og 2014)
 • -
 • Flest gullverðlaun þjálfara á stórmótum:
 • 9 - Þórir Hergeirsson (Kvennalið Noregs á HM (3), EM (5) og ÓL (1))
 • 8 - Claude Onesta (Karlalið Frakklands á HM (3), EM (3) og ÓL (2))
 • 6 - Bengt Johansson (Karlalið Svíþjóðar á HM (2) og EM (4))
 • 6 - Marit Breivik (Kvennalið Noregs á HM (1), EM (4) og ÓL (1))
 • 6 - Ulrik Wilbek (Karlalið Dana og kvennalið Dana á HM (1), EM (4) og ÓL (1))
 • -
 • Verðlaun Þóris Hergeirssonar sem aðalþjálfari norska kvennalandsliðsins:
 • 9 gull (EM 2010, HM 2011, ÓL 2012, EM 2014, HM 2015, EM 2016, EM 2020, HM 2021, EM 2022)
 • 2 silfur (EM 2012, HM 2017)
 • 3 brons (HM 2009, ÓL 2016, ÓL 2021)
 • Samtals 14 verðlaunFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.