Handbolti

„Núna er mér alveg drullusama um þetta undir lokin“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KA-mennirnir hans Jónatans Magnússonar eru í 8. sæti Olís-deildarinnar.
KA-mennirnir hans Jónatans Magnússonar eru í 8. sæti Olís-deildarinnar. vísir/hulda margrét

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var skýjum ofar eftir sigurinn á Fram í Úlfarsárdalnum í dag, 30-31. KA-menn voru sterkari aðilinn í leiknum en voru nálægt því að kasta sigrinum frá sér undir lokin.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með frammistöðuna og að vinna; byrja sterkt og halda haus. Núna er mér alveg drullusama um þetta undir lokin. Við áttum þetta skilið. Við vorum betri en þeir og komnir í frábæra stöðu,“ sagði Jónatan við Vísi.

Hann sagði margt hafa glatt sig við frammistöðu KA-manna í dag.

„Ætli ég sé ekki ánægðastur með hvernig við komum inn í leikinn. Mér fannst við vera á pari við það þegar við erum bestir,“ sagði Jónatan.

Nicholas Satchwell varði ellefu skot í fyrri hálfleik en það var bara lognið á undan storminum því Bruno Bernat varði átján skot í þeim seinni.

„Nick var frábær í fyrri hálfleik en datt svo aðeins niður og ég er ánægður með þá og ánægður með karakterinn í liðinu. Þetta var liðsframmistaða,“ sagði Jónatan.

„Við vorum aðeins tifandi undir lokin en akkúrat núna er það ekki það sem ég horfi mest í. Ég geri það kannski á morgun. En þetta var ofboðslega mikilvægur sigur fyrir okkur og gefur okkur vonandi kraft fyrir framhaldið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×