Handbolti

Kristín og sænsku stelpurnar tóku fimmta sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Nathalie Hagman skoraði níu mörk og er orðin markahæst á mótinu.
 Nathalie Hagman skoraði níu mörk og er orðin markahæst á mótinu. Getty/David Aliaga

Hinn sænsk-íslenska Kristín Þorleifsdóttir var í sigurliði Svíþjóðar í dag þegar þær sænsku tryggðu sér fimmta sætið á EM kvenna í handbolta með fimm marka sigri á Hollandi.

Svíar unnu leikinn 37-32 eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 21-16. Það vantaði því ekki mörkin í þessum leik ekki frekar en í flestum öðrum leikjum hollenska liðsins á mótinu.

Þetta er besti árangur sænska landsliðsins á Evrópumótinu í átta ár eða síðan að liðið varð í þriðja sæti á EM 2014. Liðið hefur aðeins tvisvar sinnum náð betri árangri á EM.

Sænsku stelpurnar eru samt að enda í fimmta sæti á öðru stórmótinu í röð því liðið varð einnig í fimmta sæti á heimsmeistaramótinu fyrir ári síðan.

Kristín Þorleifsdóttir nýtti eina skotið sitt í leiknum og var einu sinni rekin útaf í tvær mínútur.

Sænski hægri hornamaðurinn Nathalie Hagman var í baráttunni um að verða markadrottning mótsins en hún var fjórum mörkum á eftir þeirri þýsku Alina Grijseels fyrir leikinn. Hagman skoraði níu mörk í leiknum og er komin í efsta sætið.

Norska handboltakonan Henny Reistad á hins vegar tvo leiki eftir og gæti því náð Hagman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×