Með sigri á Georgíumönnum stíga Íslendingar stórt skref í átt að því að komast á HM í fyrsta sinn. Uppselt er á leikinn sem verður sá fyrsti í Laugardalshöllinni í tvö ár.
Í íslenska liðinu að þessu sinni eru frændur, þeir Kári Jónsson og Hilmar Pétursson. Feður þeirra, Jón Arnar og Pétur Ingvarssynir, spiluðu báðir með landsliðinu á sínum tíma. Afi þeirra er svo Ingvar Jónsson sem er stundum kallaður guðfaðir körfuboltans í Hafnarfirði. Guðjón Guðmundsson tók hann tali á æfingu landsliðsins í Laugardalshöll í gær.
„Það eru forréttindi og stórkostlegt. Ég er hamingjusamasti maður í dag,“ sagði Ingvar aðspurður hvernig væri að eiga tvo afabörn í landsliðinu. Hann hefur fylgst grannt með gangi mála hjá þeim á körfuboltavellinum frá því voru kornungir og segir þeim enn til. Gaupi bað Ingvar svo um að lýsa þeim Kára og Hilmari sem leikmönnum.
„Kári er eftirmynd föður síns. Er ákaflega líkur honum. Hann er ekkert annað en leikstjórnandi í mínum huga en beittur sóknarmaður,“ sagði Ingvar.
„Hilmar er ekki alveg eins mikil sprengja en mjög ákveðinn og heldur sínu striki, góður varnarmaður, fer vel með boltann og er góður leikstjórnandi. En hann mætti laga skotið hjá sér.“
En hafa þeir Kári og Hilmar körfuboltaþekkingu frá afa sínum? „Í beinan karllegg,“ svaraði Ingvar léttur.
Viðtalið við Ingvar má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.