Handbolti

Orðlaus yfir mögnuðum tilþrifum Benedikts

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson hefur náð að heilla áhorfendur með spilamennsku sinni í Evrópudeildinni.
Benedikt Gunnar Óskarsson hefur náð að heilla áhorfendur með spilamennsku sinni í Evrópudeildinni. Vísir/Diego

Valsmenn urðu á dögunum fyrsta íslenska liðið í sögunni til að vinna tvo Evrópuleiki í röð þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn Benidorm á útivelli. Áður hafði liðið unnið fjögurra marka sigur gegn ungverska liðinu Ferencváros og leikmenn Vals eru farnir að vekja athygli fyrir utan landsteinana.

Meðal þeirra sem hafa heillað áhorfendur með spilamennsku sinni í þessum tveimur leikjum eru bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir. Arnór hefur skorað 14 mörk í þessum tveimur leikjum g Benedikt tíu, en þeir hafa verið potturinn og pannan í sóknarleik Valsliðsins á tímabilinu.

Þrátt fyrir það að nú sé rúm vika síðan Valsmenn unnu þriggja marka sigur gegn Benidorm eru þau sem halda úti Twitter-reikningi Evrópudeildarinnar enn að klóra sér í hausnum yfir frábærum tilþrifum Benedikts.

Þegar fyrri hálfleikur var rétt tæplega hálfnaður voru Valsmenn með eins marks forskot í stöðunni 5-6. Eins og Valsliðið er orðið frægt fyrir keyrði það hratt upp völlinn og Benedikt nýtti sér yfirtöluna vinstra megin á vellinum, prjónaði sig í gegnum vörnina og snéri boltanum svo snyrtilega framhjá Roberto Rodríguez Lario í marki heimamanna.

„Benedikt Gunnar Óskarsson skilur okkur eftir orðlaus,“ var ritað á Twitter-síðu Evrópudeildarinnar og myndband af markinu látið fylgja með. Færsluna og myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Næsti leikur Vals í Evrópudeildinni er gegn þýska stórliðinu Flensburg í Origo-höllinni að Hlíðarenda næstkomandi þriðjudag. Landsliðsmaðurinn Teitur Örn Einarsson leikur með Flensburg, en liðið er taplaust eftir tvo leiki, líkt og Valsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×