Skoðun

Farið hefur fé betra: Bless ríkis­stjórn

Guðbrandur Einarsson skrifar

Hvert er ákallið í samfélaginu? Ef einhver dæmdi samfélagið okkar eftir verkum ríkisstjórnarinnar myndi viðkomandi álykta að hér væri hávært ákall um viðvarandi skuldasöfnun hins opinbera á meðan grunnstoðirnar eru skildar eftir.

Af verkum hennar mætti líka ætla að samfélagið kallaði eftir endurteknum fjárlögum þar sem ekkert tillit er tekið til stöðu viðkvæmra hópa, engu við bætt. Eða að ákall væri um að fólk í neyð sé beitt harðneskjulegri meðferð, ráðherrastólar keyptir fyrir milljarða, auðlindir þjóðarinnar afhentar sérhagsmunahópum án eðlilegs endurgjalds og sveitarfélög skilin eftir með milljarðaskuldir vegna grunnþjónustu sem hefur ekki verið fjármögnuð.

Við vitum þó að þetta sé ekki ákall samfélagsins þá er þetta samt nákvæm lýsing á verkum ríkisstjórnarinnar.

Það kemur æ betur í ljós með hverjum deginum sem líður að ríkisstjórnin er óhæf til að takast á við viðfangsefni líðandi stundar. Á meðan við glímdum við heimsfaraldur var hægt að fela sig að bak við hann en nú er það ekki hægt lengur. Með hverjum deginum sem líður verðum við æ betur upplýst um að sitjandi ríkisstjórn er ekki að gera neitt sem heitið getur til þess að bæta þetta samfélag okkar. Hún er orðin einhvers konar moðsuða um engar breytingar og óbreytt ástand.

Á sínum tíma þótti það geta verið hið besta mál að ásarnir á sitt hvorum væng stjórnmálanna mynduðu saman ríkisstjórn þannig að meintri fjármálasnilli Sjálfstæðismanna og velferðar- og loftslagsvinkli Vinstri grænna yrði hrært saman í einn pott og úr því gæti orðið ágætis grautur. En í veruleikanum er þessi grautur óætur. Það sem helst birtist okkur nú er óráðsía í ríkisrekstri, viðvarandi biðlistar og vægðarlaus útlendingapólitík.

Orð nýkjörins formanns Samfylkingarinnar á landsfundi báru með sér að stefna hennar sé fyrst og fremst að ganga inn í núverandi ríkisstjórnarsamstarf. Samstarf sem betra væri að stöðva en framlengja. Á sama tíma virðast sumir óttast að ríkisstjórnin geti sprungið ef formannsskipti verða í Sjálfstæðisflokknum. Ég myndi ekki gráta það fyrir hönd þjóðarinnar. Farið hefur fé betra.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×