Skoðun

Fagbréf atvinnulífsins – sýnileiki og vottun

Eyrún Björk Valsdóttir skrifar

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins heldur afmælisfund sinn þriðjudaginn 1. nóvember. Tilefnið er 20 ára afmæli Fræðslumiðstöðvarinnar og er yfirskrift fundarins Fagbréf atvinnulífsins – Verkfæri til framtíðar. Fagbréf atvinnulífsins eru afrakstur samstarfs Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA), sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) stýrði.

Árið 2018 hófst tilraunaverkefni um raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins þar sem sérstaklega var horft til starfa sem ekki krefjast formlegrar menntunar og eru líkleg til að taka miklum breytingum í náinni framtíð. Um var að ræða störf í framleiðslu, verslun og þjónustu, ferðaþjónustu og opinberri þjónustu. Í nánu samstarfi við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og atvinnulífið, var svo unnið að gerð hæfniviðmiða, framkvæmd raunfærnimats, starfsþjálfun út frá niðurstöðum og í fimm störfum.

Þeir sem tóku þátt í verkefninu fengu staðfestingu á færni sinni með útgáfu Fagbréfs. Sú endurgjöf gerði að verkum að þeir upplifðu sig öruggari í daglegum verkefnum sínum. Þá fengu fyrirtæki betri yfirsýn yfir færni starfsfólks og uppbygging hennar varð markvissari, starfsþróunarmöguleikar sýnilegri og starfsmannasamtöl árangursríkari.

Verkefnið er í samræmi við stefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem hefur lagt fram tilmæli um að innan símenntunarkerfa verði aukin áhersla lögð á öflug ferli til að staðfesta og viðurkenna færni sem aflað er eftir fjölbreyttum leiðum; formlegum, óformlegum og formlausum. ILO leggur jafnframt áherslu á að slík færni sé vottuð út frá hæfniviðmiðum. Þá geta Fagbréf atvinnulífsins verið leið til að jafna stöðu fólks sem kemur frá öðrum löndum og eflt stöðu þess á vinnumarkaði.

Að auka hæfni á vinnumarkaði og gera hana sýnilegri er mikilvægt ásamt því að tryggja að hæfnin sé í samræmi við þarfir atvinnulífsins og vænta þróun í efnahagslífinu á komandi árum. Breytingar eru að verða á atvinnulífi og vinnumarkaði sem færa okkur í senn nýjar áskoranir og tækifæri, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Tækniþróun, aukinn fjöldi innflytjenda á vinnumarkaði, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og menntunarstaða eru meðal þeirra þátta sem horfa þarf til.

Fagbréf atvinnulífsins byggja á samstarfi starfsfólks og fyrirtækis eða stofnunar. Megin forsenda er að til staðar sé starfsreynsla hjá þátttakendum og starfsþjálfun í boði ef þörf er á. Hæfniviðmið fyrir störf eru unnin þvert á störf til að ýta undir notagildi og traust á niðurstöðum.

Mikil tækifæri eru fólgin í Fagbréfum atvinnulífsins og mikilvægt að allir hlutaðeigandi haldi áfram á þeirri braut sem þegar hefur verið vörðuð með þessu verkefni.

Höfundur er formaður stjórnar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×