Handbolti

Rúnar Júl skoraði síðast þegar Ferencváros kom til Íslands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Júlíusson var ekki bara í vinsælustu hljómsveit landsins um miðjan 7. áratug síðustu aldar, heldur einnig í besta fótboltaliði landsins.
Rúnar Júlíusson var ekki bara í vinsælustu hljómsveit landsins um miðjan 7. áratug síðustu aldar, heldur einnig í besta fótboltaliði landsins.

Valur mætir Ferencváros í fyrsta leik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ungverska liðið kemur til Íslands en síðast þegar það gerðist skoraði einn mesti töffari Íslandssögunnar gegn því.

Fara þarf 57 ár aftur í tímann til að finna síðustu heimsókn Ferencváros til Íslands. Það var reyndar í annarri íþrótt. Sunnudaginn 29. ágúst 1965 mættust Keflavík og Ferencváros í Evrópukeppni meistaraliða á Laugardalsvellinum.

Lið Ferencváros var ógnarsterkt og með Florián Albert, sem vann Gullboltann 1967, innan sinna raða. Hann kom Ferencváros í 0-4 á 58. mínútu. Níu mínútum síðar minnkaði Rúnar Júlíusson muninn í 1-4. Hann var ekki bara í vinsælustu hljómsveit landsins, Hljómum, og einn svalasti maður skersins heldur einnig mjög svo frambærilegur fótboltamaður.

Ungur aðdáandi tekur mynd af Flórian Albert á HM 1966. Ári áður höfðu eflaust einhverjir ungir Íslendingar reynt að ná mynd af honum þegar hann mætti Keflavík ásamt félögum sínum í Ferencváros.getty/PA Images

Rúnar lék einnig seinni leik Ferencváros og Keflavíkur í Ungverjalandi. Heimamenn unnu þá 9-1 sigur og skoraði Albert fimm mörk í leiknum. Ferencváros vann því einvígið, 13-2 samanlagt. Liðið komst í átta liða úrslit keppninnar þar sem það tapaði fyrir Inter, 5-1 samanlagt.

Vonandi á Valur meiri möguleika gegn Ferencváros í kvöld en Keflavík fyrir 57 árum. Valsmenn eru allavega brattir og ætla að keyra af krafti á ungverska liðið.

Það er vissulega ógnarsterkt með þá Máté Lékai og Zsolt Balogh, lykilmenn í ungverska landsliðinu, innan sinna raða. Ferencváros endaði í 4. sæti ungversku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Leikur Vals og Ferencváros hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×