Handbolti

Ómar markahæstur er Magdeburg tryggði sér sæti í úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins í sigri Magdeburg í dag.
Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins í sigri Magdeburg í dag. Gualter Fatia/Getty Images

Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins með átta mörk er þýska liðið Magdeburg tryggði sér sæti í úrslitum heimsmeistaramóts félagsliða í handbolta í dag, en liðið vann öruggan átta marka sigur gegn egypska liðinu Al Ahli, 36-28.

Leikurinn var nokkuð jafn lengst af í fyrri hálfleik og Íslendingalið Magdeburg náði mest þriggja marka forskoti í stöðunni 12-9. Magdeburg virtist alltaf skrefi framar en Al Ahli í fyrri hálfleiknum og leiddi með einu marki þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 18-17.

Magdeburg byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og náði fljótt sex marka forystu. Það forskot lét liðið aldrei af hendi og vann að lokum öruggan átta marka sigur, 36-28.

Ómar Ingi var sem áður segir markahæsti maður vallarins með átta mörk, en Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir liðið. Magdeburg er því á leið í úrslit heimsmeistaramótsins þar sem liðið á titil að verja, en liðið mætir annað hvort Hauki Þrastarsyni og félögum hans í pólska liðinu Kielce eða spænska liðinu Barcelona í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×