Íslenski boltinn

Hnignun stórveldis: Spekileki og kettir í sekknum

Í leikmannahópi sérhvers liðs er fall þess falið svo snúið sé út úr orðum Steins Steinars. Ein af stærstu ástæðunum fyrir hnignun ÍA undanfarin ár eru leikmannamál. Þá helst hvernig hópur liðsins hefur verið uppbyggður og síðast en ekki síst hvaða leikmenn félagið hefur fengið í sínar raðir.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kaj Leo í Bartalsstovu, Wout Droste og Johannes Vall eru meðal fjölmargra erlenda leikmanna sem hafa ekki staðið undir væntingum hjá ÍA undanfarin ár. vísir/hulda margrét

Í leikmannahópi sérhvers liðs er fall þess falið svo snúið sé út úr orðum Steins Steinars. Ein af stærstu ástæðunum fyrir hnignun ÍA undanfarin ár eru leikmannamál. Þá helst hvernig hópur liðsins hefur verið uppbyggður og síðast en ekki síst hvaða leikmenn félagið hefur fengið í sínar raðir.

Í gegnum tíðina má segja að leikmannahópur ÍA hafi að mestu leyti verið byggður upp á þrenns konar hátt. Í fyrsta lagi af uppöldum Skagamönnum, í öðru lagi erlendum leikmönnum og í þriðja lagi ungum leikmönnum utan af landi.

Lengst af hefur ÍA verið sjálfbært félag að því leyti að það hefur að mestu leyti verið skipað heimamönnum. Kjarninn í öllum bestu liðum ÍA var heimabruggaður og í gullaldarliðinu á 10. áratugnum voru oft allt að níu heimamenn í byrjunarliðinu.

Lið ÍA frá 1993 sem er almennt talið eitt besta lið Íslandssögunnar.ljósmyndasafn akraness/árni s. árnason

Þótt ÍA hafi alltaf framleitt leikmenn og nóg af þeim er viðbúið að uppskeran sé ekki alltaf jafn blómleg í jafn fámennu bæjarfélagi og Akranesi. Og það hafa komið tímar þar sem leikmenn skila sér ekki í jafn miklum mæli upp í meistaraflokki og áður. Það gerðist til að mynda í upphafi aldarinnar þegar fór að hrikta í stoðum hjá ÍA.

„Ein af skýringunum er að eftir þessa stuttu velgengni í kringum aldamótin komst kynslóðin sem átti að taka við af minni ekki á legg. Það eru alls konar ástæður fyrir því að hún tók ekki við. Þar af leiðandi þurfti að fá nýja kjölfestu utan að frá sem náði ekki að viðhalda velgengninni,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari ÍA. Hann var fyrirliði síðasta Íslandsmeistaraliðs ÍA árið 2001.

Brynjólfur Þór Guðmundsson, fréttamaður á RÚV, er stuðningsmaður ÍA og hefur fylgst með liðinu frá 9. áratug síðustu aldar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson í fullum skrúða á leik með ÍA.VÍSIR/DANÍEL

„Mér finnst eins og eitthvað hafi farið úrskeiðis á fyrsta áratug aldarinnar því þá fóru miklu færri Skagamenn í atvinnumennsku en fyrr eða síðar. Það komu þó nokkrir góðir efstu deildar leikmenn upp en utan frá séð klikkaði eitthvað, hvort það var í uppeldi leikmanna eða í meistaraflokki,“ sagði Brynjólfur.

Eins og sjá má hefur ÍA selt fjölmarga frábæra leikmenn erlendis síðustu þrjátíu árin.grafík/sara

ÍA hefur alltaf verið sjálfbært félag að stórum hluta og framleitt framúrskarandi leikmenn sem hafa myndað hryggjarstykkið í liðinu. ÍA heldur áfram að búa til leikmenn en liðið er ekki í sama gæðaflokki og áður.

Fara alltaf fyrr og fyrr

Einfaldasta skýringin á því er að helstu vonarstjörnur ÍA fara fyrr út í atvinnumennsku en áður. Á síðustu öld fóru aðeins þeir allra, allra bestu erlendis og þá seinna en þeir gera núna. 

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hefðu eflaust farið út í atvinnumennsku áður en þeir útskrifuðust úr grunnskóla ef þeir hefðu komið upp í dag.ljósmyndasafn akraness/friðþjófur helgason

Pétur Pétursson, Sigurður Jónsson, Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir, Þórður og Bjarni Guðjónssynir voru svo að segja útskrifaðir úr íslensku deildinni með hæstu einkunn þegar þeir fóru út. 

Þeir hjálpuðu ÍA að vinna titla og voru meðal bestu leikmanna Íslands þegar þeir héldu utan. Núna fara efnilegustu leikmenn ÍA oftast út áður en þeir geta náð því.

Segja má að sú þróun hafi hafist þegar Arnór Smárason fór til Heerenveen 2004. Hann hafði þá hvorki leikið deildar- eða bikarleik með ÍA og á raunar enn eftir að gera þótt það breytist líklega á næsta ári. Sömu sögu er að segja af Birni Jónssyni sem fór til sama liðs ári seinna. 

Ísak Bergmann Jóhannesson kemur inn á fyrir Arnór Sigurðsson í landsleik.vísir/hulda margrét

Björn Bergmann Sigurðarson náði tveimur tímabilum áður en hann fór út og Arnór Sigurðsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson rétt fundu lyktina af meistaraflokki áður en þeir voru seldir erlendis. Og ólíklegt er að þessi þróun snúist við á næstu árum.

Kjarnann vantar

Heimamenn eru enn í stórum hlutverkum í liði ÍA en það eru ekki bestu leikmenn félagsins eins og áður og þeir eru yngri en áður. Og ekki hefur heldur náðst að mynda sterkt burðarvirki heimamanna. 

„Það vantar kjarnann. Ég held að ungir strákar eigi erfiðara með að finna fyrirmyndir og það eru fáir sem hafa spilað með ÍA í áraraðir eins og áður,“ sagði Brynjólfur og Gísli Gíslason, fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi og fyrrverandi formaður ÍA, tekur í sama streng.

Fáir þekkja fótboltann á Akranesi betur en Gísli Gíslason.vísir/hulda margrét

„Eftir sem áður hafa margir góðir leikmenn komið upp úr unglingastarfinu en við njótum ekki alltaf krafta þeirra. Þeir fara svo snemma út. Þeir sem eftir sitja eru prýðilegir leikmenn en ekki hefur náðst að mynda heildstætt lið. Leikmannaskipti hafa verið ör síðustu árin og það kemur allt niður á liðsheildinni og félagsandanum,“ sagði Gísli. 

Það verður að vera grundvallar kjarni til staðar, hryggjarstykki sem þýðir að liðið þoli breytingar án þess að það verði einhverjar hamfarir.

Á nýafstöðnu tímabili komu sautján uppaldir leikmenn við sögu hjá ÍA. En aðeins sjö þeirra eru 21 árs og eldri og bara fjórir þeirra spiluðu eitthvað að ráði (yfir þrjátíu prósent af mínútufjölda í boði): Árni Snær Ólafsson, Gísli Laxdal Unnarsson, Steinar Þorsteinsson og Hlynur Sævar Jónsson.

Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára er Steinar Þorsteinsson næstelsti heimamaðurinn í liði ÍA.vísir/diego

Með öðrum orðum vantar ekkert upp á fjölda uppalinna leikmanna í hópi ÍA en þeir eru yngri en áður og hafa ekki kjarna eldri og reyndari leikmanna til að halla sér upp að. Grafið hér fyrir neðan sýnir það bersýnilega en þar má sjá fjölda heimamanna 21 árs og eldri í liði ÍA sem hafa spilað að minnsta kosti þrjátíu prósent þeirra mínútna sem í boði voru.

Sveitastrákarnir

Vegna þessa spekileka hefur ÍA í auknum mæli þurft að leita annað eftir liðsstyrk. Í gegnum tíðina hafa Skagamenn verið afar klókir að finna unga og efnilega leikmenn frá minni stöðum utan af landi, gefið þeim tækifæri og þeir svo jafnvel tekið stærri skref á ferli sínum.

Grétar Rafn Steinsson varð að fótboltamanni hjá ÍA ef svo má segja. Hann vann þrjá titla með liðinu áður en hann fór í atvinnumennsku.ljósmyndasafn akraness/eiríkur kristófersson

Besta dæmið um þetta er eflaust Siglfirðingurinn Grétar Rafn Steinsson sem kom ungur til ÍA og endaði í ensku úrvalsdeildinni. Meðal annarra slíkra leikmanna má nefna Ólaf Adolfsson og Baldur Aðalsteinsson. Logi Ólafsson, sem þjálfaði ÍA 1995 og 1997-99, var sérstaklega naskur að finna óuppgötvaða gimsteina á landsbyggðinni.

Meðal ungra leikmanna sem ÍA hefur sótt í önnur lið undanfarin ár má nefna Brynjar Snæ Pálsson, Bjarka Stein Bjarkason, Guðmund Tyrfingsson, Ísak Snæ Þorvaldsson, Jón Gísla Eyland Gíslason og Eyþór Aron Wöhler sem var markahæsti og besti leikmaður ÍA í sumar og hefur nú verið seldur til Breiðabliks.

Eyþór Aron Wöhler skoraði níu mörk fyrir ÍA í sumar. Hann hefur samið við Íslandsmeistara Breiðabliks.vísir/diego

Svo eru það erlendu leikmennirnir. Fyrst eftir að þeir byrjuðu að koma til landsins í byrjun 10. áratugarins gerði ÍA allt rétt. Luka Kostic, Mihajlo Bibercic og Zoran Miljkovic voru ekki bara burðarstólpar í gullaldarliði ÍA heldur einnig meðal bestu erlendu leikmanna sem hafa spilað hér á landi. 

En erlendu leikmennirnir sem komu með Ivan Golac skildu ekki eftir sig margar góðar minningar og síðan hefur köttunum í sekknum fjölgað jafnt og þétt. Og undanfarin ár hefur það verið undantekning ef erlendir leikmenn hafa styrkt ÍA.

Christian Köhler var einn þriggja leikmanna sem ÍA fékk frá Val fyrir tímabilið. Enginn þeirra stóð undir væntingum.vísir/hulda margrét

Frá 2012 hafa 29 erlendir leikmenn leikið með ÍA í efstu deild. Þeir sem styrktu liðið eru nánast teljandi á fingrum annarrar handar og enginn þeirra var framúrskarandi. Meira að segja Gary Martin var aðallega góður með ÍA í næstefstu deild en ekki þeirri efstu. 

Raunar er Færeyingurinn Julian Johnsson líklega síðasti erlendi leikmaðurinn sem setti mark sitt almennilega á lið ÍA og gerði gæfumun. Og líklega hefur eitt lið í sögu efstu deildar ekki verið með jafn marga slaka erlenda leikmenn og ÍA 2013 og 2022.

Sviðin jörð

„Við höfum verið ólánsamir þegar kemur að því að fá erlenda leikmenn til liðsins og ég á alveg minn hlut í því. Þeir leikmenn sem fundu sig undir minni stjórn voru leikmenn sem voru búnir að sanna sig á Íslandi eins og Iain Williamson og Darren Lough,“ sagði Gunnlaugur. 

En þegar kemur að leikmönnum sem voru að spila í fyrsta sinn á Íslandi er þetta eiginlega bara sviðin jörð. Kannski höfum við ekki verið með nógu góð sambönd eða borgað of lítið og fundið of ódýra leikmenn.
Enginn af þessum leikmönnum fara í heiðurshöll ÍA.grafík/sara

Þarna spila auðvitað fjárhagslegar aðstæður inn í eins og Gunnlaugur segir og ÍA er ekki að busla í sömu laug og sterkustu lið landsins. En það ætti samt að vera hægt að gera betur og ÍA hefur ekki enn fundið gullæð eins og Stjarnan gerði með dönsku leikmennina í byrjun síðasta áratugar.

ÍA hefur stundum verið tilneytt til að fara þessa útlendingaleið því félagið hefur oft átt erfitt með að fá sterka og fullmótaða íslenska leikmenn upp á Akranes. Hvalfjarðargöngin hjálpuðu ekki til eins og vonast var eftir og baráttan á félagaskiptamarkaðnum hefur svo sannarlega ekki orðið auðveldari eftir að önnur íslensk félög tóku fram úr Skagamönnum hvað fjárhagslegt bolmagn varðar. 

Þótt kaup ÍA á innlendum leikmönnum undanfarin tuttugu ár eða svo hafa líka verið gloppótt hefur það þó sannarlega fengið nokkra sterka leikmenn og skýrasta dæmið um það er Ísak Snær Þorvaldsson sem var fínn með Akranesliðinu en frábær með Breiðabliki, varð Íslandsmeistari með liðinu og er búinn að semja við norska stórliðið Rosenborg.

Ísak Snær Þorvaldsson lék með ÍA í eitt og hálft tímabil áður en hann fór til Breiðabliks.vísir/bára

„Það hafa verið fínustu leikmenn í liði ÍA undanfarin ár en einhvern veginn hefur aldrei tekist að búa til lið. Leikmenn sem hafa farið frá ÍA hafa staðið sig vel í öðrum liðum,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður og sérfræðingur Stúkunnar, sem hefur sterk tengsl við ÍA. Sonur hans, Aron Kristófer, spilaði með liðinu og faðir hans, Sigurður Lárusson, var fyrirliði og þjálfari ÍA. Sjálfur spilaði Lárus Orri með ÍA í yngri flokkunum og tvo leiki með meistaraflokki sumarið 2010.

Lárus Orri Sigurðsson kemur inn á í fyrsta leik sínum með meistaraflokki ÍA sumarið 2010. Hann lauk þar með ferlinum með liðinu sem hann ólst upp hjá.hafliði breiðfjörð

ÍA hefur verið með eitt besta 2. flokkslið landsins undanfarin ár undir styrkri stjórn Sigurðar Jónssonar og unglingastarfið heldur áfram að skila góðum leikmönnum upp í meistaraflokk. Og þeir bestu halda áfram að fara kornungir erlendis. Það er gangur fótboltalífsins. 

Það sem ÍA verður að gera til að geta lifað þægilegu lífi, eða bara lifað af, í efstu deild er að mynda einhvern kjarna af heimamönnum eða leikmönnum sem hafa verið í liðinu í einhvern tíma. 

Síðan verður ÍA að velja erlendu leikmennina betur. Skagamenn hafa sýnt kænsku þegar kemur að því að fá unga og spennandi leikmenn utan af landi en hana hefur alveg vantað þegar kemur að erlendum leikmönnum. Það þarf að breytast.


Tengdar fréttir

Hnignun stórveldis: Leiðin á botninn

Það eru tvær mínútur til leiksloka í mikilvægum fallslag ÍA og Leiknis á Akranesi í 22. umferð Bestu deildar karla. Emil Berger tekur hornspyrnu og boltinn fer af Viktori Jónssyni og í mark Skagamanna. Þetta er annað sjálfsmark ÍA í leiknum og reynist sigurmark Leiknis. Skagamenn sitja eftir á botni deildarinnar fyrir úrslitakeppnina, fimm stigum frá öruggu sæti. Ef eitthvað augnablik var lýsandi fyrir síðustu tvo áratugi hjá ÍA var það þetta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.