Skoðun

Ríkið snið­gengur börn af er­lendum upp­runa bú­sett í Reykja­vík

Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Borgarstjórn mun ræða í dag um samræmda móttöku Reykjavíkurborgar á flóttafólki. Fáir sáu fyrir að ráðist yrði inni í fullvalda ríki í Evrópu á 21. öld – atburður með engum fyrirsjáanleika verður að veruleika en samt þurfa löndin í Evrópu að vera viðbúin, tilbúin kallinu þegar það kemur. Til þess höfum við laga- og regluverk sem myndar umgjörð utanum viðbrögð samfélagsins. Stundum virkar sú umgjörð vel, einsog við sáum til dæmis vel á covid tímunum. Allir lögðust á eitt, almannavarnir, sóttvarnalæknir, landlæknir vissu hvað þyrfti að gera því umgjörðin var til.

Reykjavíkurborg leiðandi í þjónustu við börn af erlendum uppruna

Samfélagið hefur vaxið, þroskast og auðgast - farið úr einsleitni í fjölbreytni samhliða aukinni alþjóðavæðingu og hagsæld. Á vef Hagstofu Íslands má sjá að árið 1986 var hlutfall erlendra ríkisborgara 1,5%, árið 2008 var það 7,4% og árið 2021 var það 13,9%. Sú samfélagslega breyting sem átt hefur sér stað á síðustu 36 árum hefur ekki gerst á einni nóttu.Tölulegar staðreyndir tala sínu máli þar.

Frá 2015 hefur Reykjavíkurborg, undir forystu Samfylkingarinnar, jafnt og þétt unnið að því að svara breyttri þjónustuþörf innan borgarinnar með tilkomu fleiri barna af erlendum uppruna inn í skóla- og frístundastarf. Í nýlegu minnisblaði Skóla- og frístundarsviðs er ítarlega reifað hvað hefur verið gert til að veita nýja þjónustu, svara fjölbreyttri þörf og ólíkum áskorunum síðustu ár og misseri. Þannig hefur aðgerðaáætlun, sem Samfylkingin lagði til í kosningaáherslum 2018, komist til framkvæmda í gegnum meirihlutasamstarf síðasta kjörtímabils en á tímabilinu voru fjárframlög til málaflokksins hækkuð um tæpan helming eða 143 milljónir á ári eða 429 milljónir króna. Í tölulegum upplýsingum sem Skóla- og frístundasvið heldur utan um, kemur fram að börnum með annað móðurmál en íslensku fjölgað í grunnskólum Reykjavíkur á árunum 2015-2022 um 1523 einstaklinga miðað við bráðabirgðatölur fyrir árið 2022. Hefur þessi hópur farið úr 1667 börn í um 3200 börn á þessu tímabilinu.

Utan Reykjavíkur búa samtals í landinu um 3600 börn með annað móðurmál en íslensku. Þannig býr tæplega helmingur barnanna af erlendum uppruna á landsvísu í Reykjavík.

Reykjavíkurborg sniðgenginn með lagasetningu 2019

Þessi mikilvægi hópur, börn af erlendum uppruna i Reykjavík, var freklega sniðgenginn þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt árið 2019. Af einhverjum furðulegum ástæðum var Reykjavíkurborg útilokuð þegar kom að jöfnunarframlögum til reksturs grunnskóla á grundvelli ákvæðis (3. mgr 13. gr) um fjölda íbúa sem skilgreindur er 70.000 íbúa eða fleiri.

Í reglugerð um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla er kveðið á um í þriðju grein um almenn framlög sjóðsins að „framlög skv. þessari grein eru ætluð öllum sveitarfélögum nema Reykjavík“. Og í immtu grein sömu reglugerðar um framlög til nýbúafræðslu segir: „Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal greiða öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg framlög til nýbúafræðslu á grunnskólastigi þar sem um slíka fræðslu er að ræða“.

Þessi ákvörðun um að útiloka Reykjavíkurborg í gegnum lagasetningu og reglugerðir var tekin í sögulegri fjölgun erlendra ríkisborgara til landsins árið 2019 þegar hlutfall erlendra ríkisborgara var orðið 12.4% af heildarfjölda landsmanna.

Á meðan Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fer eftir þessum ósanngjörnu lögum eru 3200 börn með annað móðurmál en íslensku búsett í Reykjavík snuðuð um 5.8 milljarða króna framlag sem ætti að renna til grunnskóla borgarinnar ef sama framlag fylgdi þeim og í alla aðra grunnskóla annars staðar á landinu, frá Garðabæ til Þórshafnar. Sú tala kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem sent hefur verið inn með frumvarpi til fjárlaga 2023.

Við þessar aðstæður er framúrskarandi starfsfólk í leik- og grunnskólum borgarinnar og lausnamiðaðir stjórnendur, að glíma daglega við að bjarga málum, hugsa í lausnum, svo hægt sé að svara kalli um þjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp í skólakerfinu með mannúð og skilning á ólíkum þörfum fólks með fjölbreyttan bakgrunn að leiðarljósi.

Börn af erlendum uppruna komin á dagskrá stjórnmálanna

Sautján ríkisstjórnir hafa setið við völd síðustu þrjátíu og sex árin og engin þeirra hefur sett skýrar leikreglur og umgjörð til tryggja hag barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra þrátt fyrir að miklar efnahagslegar framfarir og sögulega kaupmáttaraukningu. Hagsæld og kaupmáttaraukning sem að hluta má þakka foreldrum þessara barna sem hingað koma til að vinna eða leita skjóls vegna stríðsátaka.

Það hefur legið lengi fyrir að hingað koma margir til að vinna – margir með fjölskyldur sínar og börn. Sumir stoppa stutt á meðan aðrir festa rætur. Með aukinni hagsæld fjölgar börnum með annað móðurmál en íslensku. Núna þurfum við sem samfélag að standa saman og taka fastar utan um þennan viðkvæma hóp og fjölskyldur þeirra með því að leiðrétta fjármagn úr Jöfnunarsjóði Sveitarfélaga og festa í sessi umgjörð um málaflokkinn þannig að börnum sé ekki mismunað á grundvelli búsetu og uppruna.

Tækifærið til að leiðrétta hlut Reykjavíkurborgar er NÚNA í þeirri fjárlagavinnu sem Alþingi stendur frammi fyrir næstu vikurnar, það verður að endurskoða úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs í gegnum lög um tekjustofna Sveitarfélaga og tryggja þeim 3200 börnum sem er mismunað á grundvelli búsetu sína hlutdeild í samneyslunni. Skiptir engu um hvort um er að ræða landlaust flóttafólk eða börn sem fylgja foreldrum sínum eftir. Við þurfum að tryggja jöfn tækifæri fyrir öll börn sama hvaðan þau koma, hvar þau búa eða hvert móðurmálið þeirra er.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður íbúaráðsins í Breiðholti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×