Handbolti

Harðverjar styrkja málefni sem stendur þeim nærri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stefán Már Arnarsson og Þráinn Ágúst Arnaldsson beittu sér fyrir því að Hörður myndi styrkja málefnið sem stendur þeim nærri.
Stefán Már Arnarsson og Þráinn Ágúst Arnaldsson beittu sér fyrir því að Hörður myndi styrkja málefnið sem stendur þeim nærri. Stöð 2 Sport

Hörður frá Ísafirði, sem leikur í ár í fyrsta skipti í Olís-deild karla, mun láta gott af sér leiða og styrkja starfsemi Bleiku slaufunnar og Krabbameinsfélagið Sigurvon með framleiðslu bleikrar treyju. Málefnið stendur leikmönnum liðsins nærri.

Harðverjar hafa látið framleiða bleika treyju í samstarfi við Bleiku slaufuna og Krabbameinsfélagið Sigurvon og mun allur ágóði af sölu treyjunnar renna beint til samtakanna tveggja.

„Amma hans greindist með brjóstakrabbamein og amma mín lést úr brjóstakrabbameini þegar ég var lítill krakki og ég fékk aldrei að kynnast henni og móðir mín fékk svo brjóstakrabbamein líka rétt fyrir Covid 2020. Þetta er bara verkefni og hlutir sem standa mér mjög nærri,“ segir Þráinn Ágúst Arnaldsson, leikmaður Harðar.

„Svo okkur datt í hug að tengja líka Sigurvon inn í þetta sem er krabbameinsfélagið á Ísafirði sem að studdi mömmu mína mjög mikið með ferðastyrkjum, sálfræðimeðferð og fleiru. Þetta var náttúrulega mjög erfitt og okkur langar að gefa eitthvað til baka,“ bætir Þráinn við.

Hörður er í fyrsta skipti í efstu deild í handbolta vilja stimpla sig almennilega inn. Þátttakan í verkefninu er liður í því.

„Það er gaman að koma inn með smá 'oumph', aðeins að markaðssetja okkur og stimpla okkur inn í Olís. Vonandi byggjum við góðan grunn til að halda áfram,“ segir Stefán Mar Arnarsson, sem er í þjálfarateymi liðsins.

Klippa: Bleikar treyjur Harðar

Harðverjar klæddust treyjunni við upphitun fyrir leik sinn við ÍR á dögunum en vel má vera að þeir klæðist treyjunni í leik á næstunni. Næsti leikur liðsins er við Selfoss þriðjudaginn 18. október á Ísafirði.

„Við erum búnir að klæðast honum einu sinni, í upphitun [gegn ÍR], og við erum bara að bíða eftir að fá að spila í honum,“ segir Stefán Mar.

Einnig var bleiki búningurinn skoðaður í Seinni bylgjunni þar sem Einar Jónsson og Árni Stefán Guðjónsson fengu eintak. Einar að vísu seldi sína treyju til Daða Magnússonar, tæknistjóra ÍBV TV, sem vildi ekki fá áritun frá Einari á treyjuna, þrátt fyrir að slíkt væri í boði.

Klippa: Seinni bylgjan: Bleikar treyjur

Hægt er að panta treyjuna af Herði á Facebook-síðu félagsins, á Instagram-síðu Harðar eða með því að senda póst á bleikurhordur@gmail.com.

Hægt er að leggja verkefninu lið með því að leggja inn á kt. 650169-2639 og rk. 0556-14-400732.

Viðtalið við þá Stefán og Þráin má sjá í efri spilaranum að ofan og innslagið úr Seinni bylgjunni í þeim neðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×