Viðskipti innlent

Síminn braut ekki samkeppnislög með sölu enska boltans

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Síminn tryggði sér sýningarréttinn að enska boltanum árið 2018 og mun eiga þann rétt fram til ársins 2025.
Síminn tryggði sér sýningarréttinn að enska boltanum árið 2018 og mun eiga þann rétt fram til ársins 2025. vísir/vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ekki brotið gegn ákvæða sáttar við Samkeppniseftirlitið með því að tvinna saman fjarskiptaþjónustu og línulega sjónvarpsþjónustu, enska boltann á Símanum Sport, í svonefndum Heimilispakka. 

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði komist að þeirri niðurstöðu að verðlagning Símans á enska boltanum, sem hluta af Heimilispakkanum hafi takmarkað möguleika samkeppnisaðila til að laða til sín viðskiptavini og sektað fyrirtækið um 200 milljónir.

Forsaga málsins er sátt Símans og Samkeppniseftirlitsins þar sem Síminn samþykkti að gera það ekki að skilyrði fyrir kaupum á fjarskiptaþjónustu að einhver sjónvarpsþjónusta skuli fylgja með kaupunum. Þá væri Símanum óheimilt að tvinna saman í sölu fjarskiptaþjónustu og sjónvarpsþjónustu. Með Heimilispakka Símans bauðst viðskiptavinum að kaupa fjarskiptaþjónustu ásamt sjónvarpsþjónustu, sem innihélt enska boltann, á 15.000 krónur. Taldi Samkeppniseftirlitið að Síminn hafi brotið gegn sáttinni með tilboðinu.

Í löngum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er úrskurður áfrýjunarnefndar Samkeppniseftirlits felldur úr gildi og stjórnvaldsekt Símans upp á 200 milljónir felld niður. Taldi Héraðsdómur óumdeilt að Síminn hafi ekki gert það að beinu skilyrði fyrir kaupum á fjaskiptaþjónustu að útsendingar frá knattspyrnuleikjum á Englandi fylgi með. Þá var talið að sá liður ákvörðunar Samkeppniseftirlits sem snýr að samtvinnun fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu hafi ekki lagt algert bann við samtvinnun og að tilboð Símans hafi ekki talist óeðlilegt. Eftirlitið var ekki talið hafa fært sönnur fyrir brotinu og var úrskurður eftirlitsins því felldur úr gildi.

Á vef Samkeppniseftirlitsins kemur fram að stofnunin mun fara ítarlega yfir forsendur héraðsdóms og taka í framhaldinu ákvörðun um hvort vísa beri málinu til Landsréttar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.