Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Höttur 98-92 | Haukar höfðu betur í einvígi nýliðanna

Andri Már Eggertsson skrifar
Haukar byrjuðu tímabilið á sigri
Haukar byrjuðu tímabilið á sigri Vísir/Bára Dröfn

Það var himinn og haf milli fyrri og seinni hálfleiks Hauka. Höttur spilaði frábærlega í fyrri hálfleik þar sem hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru fór ofan í og voru gestirnir níu stigum yfir í hálfleik.

Haukar keyrðu yfir Hött í þriðja leikhluta. Gestirnir komu til baka í fjórða leikhluta en það dugði ekki til og Haukar fögnuðu sex stiga sigri 98-92. 

Haukar mættu í góðum gír í Ólafssal og byrjuðu leikinn af krafti strax í fyrstu sókn. Haukar gerðu fyrstu sjö stigin í leiknum og hittu úr fimm af fyrstu sex skotunum sem þeir tóku.

Heimamenn komust tíu stigum yfir í fyrsta fjórðung og hefði verið auðvelt fyrir Hött að stoppa blæðinguna með leikhléi en Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, treysti sínum mönnum til að leysa vandamálið á parketinu sem heldur betur skilaði sér.

Breki Gylfason í leik kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

Höttur tók átta þriggja stiga skot og hitti úr fimm. Gestirnir jöfnuðu leikinn í 25-25 og Matej Karlovic fékk síðan þrjú vítaskot þegar hann sótti villu rétt áður en fyrsti leikhluti kláraðist. Matej setti öll vítin spjaldið ofan í sem var afar skondið en það virkaði og Höttur var yfir eftir fyrsta leikhluta 27-28.

Eftir að Haukar gerðu fyrstu körfuna í öðrum leikhluta tók gestirnir frá Egilsstöðum yfir leikinn og náðu ellefu stiga áhlaupi 2-13. Höttur hitti frábærlega fyrir utan þriggja stiga línuna. Þegar sextán mínútur voru liðnar af leiknum höfðu bæði lið tekið ellefu þriggja stiga skot. Haukar hitt úr þremur á meðan Höttur hitti úr átta.

Hilmar Smári í leik kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

Darwin Davis Jr endaði fyrri hálfleik á að setja niður þrist og minnkaði forskot Hattar niður í níu stig. Staðan í hálfleik var 46-55.

Þriggja stiga veislan hélt áfram í byrjun síðari hálfleik og Haukar vildu vera með. Það var mikill hraði í þriðja leikhluta og Máté Dalmay, þjálfari Hauka, virtist hafa kveikt í sínum mönnum í hálfleik því Haukar náðu 18-6 áhlaupi á fjórum mínútum áður en Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, tók leikhlé.

Haukar - Höttur. Subway deild karla. Vetur 2022-2023. Körfubolti.Vísir/Bára Dröfn

Haukar fóru á kostum í þriðja leikhluta og gerðu 30 stig á meðan Höttur gerði aðeins 14 og var það Obadiah Nelson Trotter sem bjargaði andliti Hattar með því að setja niður þrist rétt áður en þriðji leikhluti kláraðist.

Haukar gáfu ekkert eftir í síðasta fjórðung og þegar Orri Gunnarsson var búinn að setja nður tvo þrista sá Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, ekkert annað í stöðunni en að taka leikhlé þrettán stigum undir.

Höttur sýndi hetjulega baráttu undir lokin og minnkaði forskot Hauka minnst niður í fjögur stig þegar innan við tvær mínútur voru eftir. Áhlaup Hattar kom of seint og heimamenn fögnuðu sigri 98-92.

Af hverju unnu Haukar?

Þriðji leikhluti Hauka var frábær í alla staði. Vendipunkturinn í leiknum var þegar Darwin Davis endaði fyrri hálfleik á þriggja stiga körfu sem varð til þess að Haukar voru níu stigum undir í hálfleik í stað tólf.

Haukar byrjuðu seinni hálfleik á 18-6 áhlaupi á tæplega fjórum mínútum og litu ekki um öxl eftir það.

Hverjir stóðu upp úr?

Daniel Mortensen var öflugur í kvöld. Í fyrri hálfleik tók Daniel 13 af 18 fráköstum Hauka. Hann endaði með 19 stig, 16 fráköst og 4 stoðsendingar.

Norbertas Giga var stigahæstur hjá Haukum. Norbertas gerði 24 stig, tók 8 fráköst og skilaði 32 framlagspunktum.

Matej Karlovic var stigahæstur hjá Hetti með 25 stig. Karlovic var hitti vel fyrir utan þriggja stiga línuna en hann hitti úr sex af átta þristum.

Hvað gekk illa?

Byrjun Hattar í bæði fyrsta leikhluta og þriðja leikhluta var liðinu að falli. Höttur byrjaði leikinn á að lenda sjö stigum undir. Í þriðja leikhluta náðu Haukar 18-6 áhlaupi og var varnarleikur Hattar í þriðja leikhluta ekki boðlegur þar sem Haukar fengu einfaldlega að leika sér. 

Hvað gerist næst?

Höttur fær Njarðvík í heimsókn á Egilsstaði klukkan 18:15 á fimmtudaginn.

Haukar fá Þór Þorlákshöfn í heimsókn næsta föstudag klukkan 20:15.

Máté: Breyttum vörninni í seinni hálfleik sem skilaði sér

Máté var ánægður með sigurinnVísir/Bára Dröfn

Máté Dalmay, þjálfari Hauka, var ánægður með sigur í fyrsta leik.

„Þeir voru með 70 prósent þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik þar sem við vorum að spila lélega vörn og það stóð upp úr að okkur tókst að breyta því í seinni hálfleik,“ sagði Máté Dalmay og hélt áfram.

„Þeir hefðu getað lifað á þessari þriggja stiga nýtingu hefðum við spilað sömu vörn í seinni hálfleik. Við breyttum um vörn og vorum að verjast nær þeim.“

Máté Dalmay var ánægður með hvernig hans menn héldu haus og kláruðu leikinn þar sem Höttur minnkaði forskot Hauka niður í fjögur stig þegar lítið var eftir.

„Þeir eru með þrjá leikmenn sem geta skotið þeim inn í leikinn hvenær sem er við gleymdum okkur tvisvar og Höttur refsaði okkur. Við tókum síðan leikhlé og náðum að loka leiknum,“ sagði Máté Dalmay að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.