Sport

„Töpuðum síðasta leik á undirbúningstímabilinu sem gerði mikið fyrir okkur“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með sigurinn
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með sigurinn Vísir/Bára Dröfn

Breiðablik vann ellefu stiga útisigur á Þór Þorlákshöfn 100-111. Ívar Ásgrímsson var þjálfari Breiðabliks í kvöld vegna fjarveru Péturs Ingvarssonar sem var í leikbanni. Ívar var afar ánægður með sigur í 1. umferð Subway deildarinnar. 

„Byrjunin hjá okkur í fyrsta leikhluta var frábær þar sem vörnin var stórkostleg sem skilaði sér í hraðaupphlaupum. Við duttum niður í öðrum leikhluta og í byrjun fjórða leikhluta en heilt yfir var þetta mjög góður leikur,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Vísi eftir leik.

Ívar var ánægður með stemmninguna í liðinu þar sem allir voru að fagna því sem gerðist á vellinum.

„Við höfum verið að spila með svona stemmningu á undirbúningstímabilinu. Síðasti leikurinn okkar á undirbúningstímabilinu var lélegur sem var gott kjaftshögg og það tap var hollt fyrir okkur.“

Eftir að Þór minnkaði forskot Breiðabliks í öðrum leikhluta var Ívar ánægður með hvernig Breiðablik mætti í síðari hálfleik og byrjaði á að gera fyrstu sjö stigin í þriðja leikhluta.

„Ég var ánægður með fyrsta og þriðja leikhluta hjá okkur. Þegar Þór kom með áhlaup þá héldum við haus og komum alltaf til baka.“

Ívar fékk á sig tæknivillu undir lok leiks þegar hann hélt að leikurinn væri búinn og fór inn á völlinn til að fagna.

„Þetta var algjört klúður. Ég var svo ánægður með sigurinn að ég hélt að leikurinn væri búinn. Ég þarf að halda í meðaltalið mitt í tæknivillum,“ sagði Ívar Ásgrímsson léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×