Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Fram 34-27| Valsmenn halda áfram sigurgöngunni

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Valsmenn fagna sætum sigri í leikslok
Valsmenn fagna sætum sigri í leikslok Vísir: Hulda Margrét

Valsmenn fengu Fram í heimsókn í 16. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 16-15 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Í seinni hálfleik tóku Valsmenn leikinn yfir og unnu með sjö mörkum 34-27.

Valsmenn tóku forystu á fyrstu mínútum leiksins. Framarar hrukku í gang eftir um tíu mínútur og þegar að stundarfjórðungur var liðin af leiknum var staðan 7-7. Það kveikti í Valsmönnum á nýjan leik og náðu þeir fjögurra marka forystu, 12-8 stuttu seinna. 

Valsmenn héldu 2-3 marka forystu allt fram á loka mínútu fyrri hálfleiks en þá náðu Framar að góðum kafla og skildu liðin með einu marki þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 16-15. 

Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum seinni hálfleiks en þegar um stundarfjórðungur var liðin virtust Framarar vera að missa tökin, staðan 23-19. Valsmenn héldu fjögurra marka forystu um stund en á síðustu tíu mínútum leiksins tóku þeir alveg yfir leikinn. 

Það kom hökkt á sóknarleik Framarar sem reyndu að þvinga boltann inn á línu sem skilaði hraðaupphlaupum hjá Val. Á meðan fundu Framarar engin svör við varnarleik Vals og héldu Valsmenn áfram að skora og unnu að lokum leikinn með sjö mörkum, 34-27. 

Afhverju vann Valur?

Valsmenn spila handbolta sem önnur lið ráða lítið við. Eftir að þeir keyrðu hraðann almennilega upp í seinni hálfleik stungu þeir Framara af. Þeir þéttu vörnina hjá sér og keyrðu svo í bakið á þeim með hraðaupphlaupum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Val voru Róbert Aron Hostert og Þorgils Jón Svölu Baldursson atkvæðamestir með sex mörk hvor. Varnarleikur Vals var góður og með Björgvin Pál Gústavsson fyrir aftan sem varði 15 bolta og þar af eitt víti. 

Hjá Fram var Kristófer Dagur Sigurðsson atkvæðamestur með sex mörk. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var með fimm mörk. 

Hvað gekk illa?

Eftir góðan fyrri hálfleik misstu Framarar algjörlega tökin á leiknum í seinni hálfleik. Þeir fóru að spila óagaðan sóknarleik og voru mikið að reyna þvinga boltanum inn á línuna og missa hann frá sér í kjölfarið. Varnarleikurinn var ekki nógu góður í seinni hálfleik og náðu Valsmenn að nýta línuna vel og taka skotin af löngu færi. 

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á föstudaginn og þá í 5. umferð. Leikurinn fer fram í Úlfarsárdal kl 19:30. 

Einar Jónsson: „Þeir sýndu það í dag að þeir eru betri en við“

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur í leikslokVísir: Hulda Margrét

„Ég er hundfúll. Við vorum ágætir í fyrri hálfleik og svo töpum við baráttunni algjörlega. Við erum slakir sóknarlega á köflum í seinni hálfleik og þetta var ekki gott,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, svekktur eftir sjö marka tap á móti Val í kvöld. 

„Við erum slakir einum fleiri og ég hef sagt það áður, við þurfum að laga það. Við erum bara lélegir.“

Framarar voru góðir í fyrri hálfleik en misstu leikinn algjörlega frá sér í seinni hálfleik. 

„Þetta var fyrst og fremst sóknarleikurinn var slakur í seinni hálfleik. Þeir keyra svo djöfulli grimmt á okkur og við náum ekki að verjast því heldur. Þessi leikur var svo sem allt í lagi á köflum en Valur er með frábært lið og þeir sýndu það í dag að þeir eru betri en við.“

Framarar fengu þrjú víti í leiknum þar sem að eitt fór framhjá, Björgvin varði víti tvö og þriðja vítið endaði í slánni. Einar segir það hrikalega dýrt að fara svona illa með dauðafæri. 

„Það segir sig sjálft að það er hrikalega dýrt að fara með þrjú víti og nokkur hraðaupphlaup og dauðafæri. Auðvitað þurfa svona hlutir að ganga upp til þess að geta unnið Val. Það gekk ekki í dag ásamt fleiri hlutum. Ég er ekki nógu ánægður með þetta, við þurfum að rífa okkur upp.“

Liðin mætast aftur á föstudaginn og vill Einar að Framarar nýti færin sín betur og ætlar að leggja áherslu á að laga sóknarleikinn. 

„Við þurfum að bæta nokkra hluti og við förum yfir það á æfingu. Við þurfum að hlaupa betur til baka, það er fyrsta atriðið. Svo þurfum við að nýta færin okkar betur, það segir sig sjálft. Við þurfum aðeins að skoða sóknarleikinn hjá okkur og það er fullt af hlutum sem að við þurfum að laga. Þetta mót er rétt að byrja og við erum ennþá að reyna bæta okkur.“

Myndir: 

Róbert Aron skoraði sex mörk fyrir Val Vísir: Hulda Margrét
Dómarar leiksins gáfu þó nokkrar tvær mínútur í kvöldVísir: Hulda Margrét
Það var hart barist í kvöldVísir: Hulda Margrét
Þorsteinn Gauti skoraði fimm mörk fyrir Fram Vísir: Hulda Margrét
Valsmenn fögnuðu vel í leikslokVísir: Hulda Margrét

Tengdar fréttir

„Þeir þurftu að hafa fyrir sínum mörkum“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var sáttur með sigur sinna manna er þeir tóku á móti Fram í 16. umferð Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn var jafn framan af en Valsmenn tóku yfir í seinni hálfleik og unnu leikinn með sjö mörkum, 34-27. 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.