Formúla 1

Eldsneytisleysið í gær gæti seinkað heimsmeistaratitlinum í dag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Max Verstappen gæti þurft að bíða þolinmóður eftir sínum öðrum heimsmeistaratitli.
Max Verstappen gæti þurft að bíða þolinmóður eftir sínum öðrum heimsmeistaratitli. Mark Thompson/Getty Images

Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1, gæti þurft að bíða örlítið lengur eftir sínum öðrum heimsmeistaratitli í íþróttinni eftir að Red Bull bíll hans var orðinn lár á eldsneyti undir lok tímatökunnar í Singapúr í gær.

Tímatökur gærdagsins voru æsispennandi á votu malbikinu í Singapúr þer sem liðin og ökumenn þeirra áttu erfitt með að átta sig á hverskonar dekk væri best að nota.

Eftir því sem leið á tímatökurnar þornaði brautin jafnt og þétt og þegar komið var að þriðja og seinasta hlutanum keyrðu nánast allir á mjúkum, þurrum dekkjum. Vætan hafði þó sett strik í reikninginn fyrir lið á borð við Mercedes, en George Russell komst ekki í gegnum annan hlutann og ræsir því ellefti í dag.

Þegar þriðji og seinasti hlutinn hófst þornaði brautin hratt og ökumennirnir tíu sem eftir voru bættu tíma hvers annars hvað eftir annað.

Charles Leclerc kom í mark á sínum seinasta tímatökuhring hraðari en nokkur annar á tímanum 1:49,412. Heimsmeistarinn Max Verstappen var þó enn í brautinni og leit út fyrir að hann myndi ræna ráspólnum af Ferrari-ökumanninum.

Liðsmenn Red Bull kölluðu heimsmeistarann þó inn á þjónustusvæðið á seinustu stundu áður en Verstappen gat klárað hringinn. Ástæðan fyrir því var sú að lítið eldsneyti var eftir á bílnum og samkvæmt reglum Formúlunnar mega ökumenn ekki klára tímatökur nema vera með ákveðið magn af eldsneyti eftir. Ef þeim reglum er ekki fylgt þurfa ökumennirnir að taka út refsingu og ræsa aftastir.

Heimsmeistarinn Max Verstappen mun því ræsa áttundi þegar kappaksturinn í Singapúr fer fram síðar í dag. Á jafn þröngri götubraut og Singapúr býður upp á verður erfitt fyrir Hollendinginn að vinna sig upp listann og því þarf hans annar heimsmeistaratitill líklega að bíða betri tíma. Til að Verstappen tryggi sér heimsmeistaratitilinn í dag þarf hann að koma fyrstur í mark, fá aukastig fyrir hraðasta hringinn og treysta því að maðurinn á ráspól, Charles Leclerc, lendi ekki ofar en í níunda sæti.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×