Handbolti

Bjarki Már marka­hæstur hjá Veszprém

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarki Már átti frábæran leik í dag.
Bjarki Már átti frábæran leik í dag. Twitter@telekomveszprem

Bjarki Már Elísson er hægt og rólega að komast í sitt besta form með Veszprém. Hann var markahæstur hjá sínu liði er það fékk Tatabánya í heimsókn í ungversku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, lokatölur 42-32.

Stórlið Veszprém vann tíu marka stórsigur í dag en það stefndi þó ekki í það þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik, staðan þá aðeins 22-19. Í síðari hálfleik spilaði Veszprém fantagóða vörn og sóknarleikur Tatabánya hikstaði.

Á endanum unnu Bjarki Már og félagar öruggan tíu marka sigur. Íslenski landsliðsmaðurinn var markahæstur í dag með tíu mörk úr aðeins ellefu skotum.

Veszprém hefur byrjað tímabilið vel og er með þrjá sigra í þremur leikjum. Liðið er í öðru sæti þar sem Pick Szeged hefur spilað fjóra leiki til þessa og unnið þá alla.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.