Handbolti

Viggó tryggði Leipzig jafntefli gegn Lemgo

Atli Arason skrifar
Viggó Kristjánsson.
Viggó Kristjánsson.

Viggó Kristjánsson, leikmaður Leipzig, var markahæsti leikmaður liðsins og skoraði markið sem réði úrslitum í 29-29 jafntefli gegn Lemgo. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon, leikmenn Magdeburg, skoruðu samtals 12 mörk í stórsigri á Minden á sama tíma.

Viggó gerði 9 mörk og þar á meðal mark úr vítakasti þegar leiktíminn var liðin sem tryggði Leipzig jafntefli gegn Lemgo í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Í Magdeburg skoruðu þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon samtals 12 mörk í stórsigri Magdeburg gegn Minden á heimavelli, 39-25. Ómar Ingi var markahæsti leikmaður vallarins með 9 mörk en Gísli skoraði 3.

Arna Freyr Arnarsson, leikmaður Melsungen, tókst ekki að komast á blað í 34-34 jafntefli gegn Erlangen á sama tíma.

Fjórða og síðasta viðureign dagsins var svo leikur Hannover-Burgdorf og Kiel þar sem síðarnefnda liðið vann tveggja marka sigur, 27-29.

Stigið sem Viggó tryggði Leipzig lyftir þeim upp í 13. sæti deildarinnar en Leipzig hefur nú náð í þrjú stig í fyrstu sex leikjum sínum.

Melsungen, með Arnar Freyr innanborðs, er í 11. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, einnig með þrjú stig en Ómar Ingi og Gísli Þorgeir ásamt liðsfélögum þeirra í Magdeburg hafa nú unnið alla fimm leiki sína til þessa og eru í efstu þremur sætunum með Rhein-Neckar Löwen og Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×