Handbolti

„Þetta er líkamsárás“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Augnablikið þegar Roberta Stropé sló Valgerði Ýri Þorsteinsdóttur.
Augnablikið þegar Roberta Stropé sló Valgerði Ýri Þorsteinsdóttur. stöð 2 sport

Óskiljanlegt er að Roberta Stropé hafi sloppið við rautt spjald fyrir fólskulegt brot á Valgerði Ýri Þorsteinsdóttur í leik HK og Selfoss í 1. umferð Olís-deildar kvenna. Þetta var mat sérfræðinga Seinni bylgjunnar.

Á 21. mínútu fór Roberta með hendina mjög groddaralega í andlitið á Valgerði sem lá eftir og var borin af velli. Þessi reyndasti leikmaður HK kom ekkert meira við sögu í leiknum.

„Það er ekkert eðlilegt við þetta. Þetta er líkamsárás. Þetta er ekki í lagi. Ég kemst ekki yfir þetta,“ sagði Svava Kristín Grétarsdóttir í Seinni bylgjunni í leik.

Roberta gengur jafnan hart fram í vörninni og fékk fjölmargar brottvísanir þegar hún lék síðast í Olís-deildinni, með Aftureldingu.

„Það eru læti í henni og hún er þar sem slagsmálin eru, olnbogar úti og svona. Ég þekki hana ekki nógu vel sem leikmann en í þessum leik eru tvö brotin gróf og það er hættulegt ef leikmenn meiða sig svona,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir sem var sérfræðingur í þættinum ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.

Klippa: Seinni bylgjan - umræða um gróft brot Robertu á Valgerði

„Við gerum henni það ekki að ætla henni að þetta sé viljandi. Hún er að reyna að fara í boltann en þetta er brot sem við viljum fá út úr sportinu,“ sagði Árni.

Nýliðar Selfoss unnu leikinn í Kórnum á laugardaginn með sjö marka mun, 25-32. Í næstu umferð sækir HK Íslands- og deildarmeistara Fram heim á meðan Selfoss tekur á móti Val.

Umræðuna um brot Robertu á Valgerði má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.