Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, en Þjóðverjar voru þó hálfu skrefi framar og náðu mest sjö stiga forskoti. Að fyrsta leikhluta loknum höfðu Þjóðverjar fimm stiga forskot í stöðunni 19-14.
Pólverjar byrjuðu svo annan leikhlutann betur og minnkuðu muninn fljótlega niður í eitt stig. Þjóðverjar skelltu þá í lás og skoruðu 13 stig í röð og fóru að lokum inn í hálfleikinn með 13 stiga forskot í stöðunni 36-23.
Pólverjar unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn á ný eftir hálfleikshléið og voru búnir að minnka muninn aftur niður í fimm stig þegar komið var að lokaleikhlutanum. Pólverjar náðu svo að jafna metin snemma í fjórða leikhluta, en þá settu Þjóðverjar aftur í fluggírinn og unnu að lokum 13 stiga sigur, 82-69.
Dennis Schroder var atkvæðamestur í liði Þjóðverja með 26 stig, eitt frákast og sex stoðsendingar. Í liði Pólverja var það Michal Sokolowski sem var stigahæstur með 18 stig.