Umfjöllun og viðtal: Grótta-ÍR 31-20 | Grótta fór illa með nýliðana

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
_G8A0191 (2)
Vísir/Hulda Margrét

ÍR spilaði í kvöld sinn fyrsta leik í Olís-deild karla í handbolta síðan vorið 2021. Andstæðingurinn í kvöld var Grótta, en leikið var í Hertz höllinni út á Seltjarnarnesi. Leiknum lauk með stórsigri heimamanna 31-20.

Grótta byrjaði af miklum krafti og ætlaði að beita nýjasta tískuafbrigðinu í handboltanum, að keyra mótherjann niður með hröðum sóknum. Staðan 5-2 eftir um níu mínútna leik. Þá hrökk Ólafur Rafn Gíslason, markvörður ÍR, í gang og varði hvert skotið á fætur öðru frá leikmönnum Gróttu. ÍR náði að skora jafnt og þétt á meðan Ólafur Rafn var að verja, sem endaði með að ÍR komst í forystu. Staðan 7-8, ÍR í vil eftir um tuttugu mínútna leik. Eftir þennan kafla snerist leikurinn algjörlega við og Grótta gjörsamlega keyrði yfir ÍR fram að hálfleiksflautinu. Sjö marka munur í hálfleik, 17-10 heimamönnum í vil.

Grótta bætti en meira í í byrjun seinni hálfleiks og komst í tíu marka fjarlægð frá ÍR á fyrstu fjórum mínútum seinni hálfleiks. Stirður sóknarleikur ÍR-inga skilaði sér í fjölda hraðaupphlaupa fyrir leikmenn Gróttu. Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Gróttu leit út eins og hinn ágætis leikstjórnandi í ruðningi á köflum þegar hann þeytti boltanum fram á meðspilara sína sem kláruðu færin vel.

Þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum fór rautt spjald á loft. Viktor Sigurðsson, leikmaður ÍR, feldi þá Þorgeir Bjarka Davíðsson, hornamann Gróttu, í hraðaupphlaupi og rauða spjaldið óumflýjanlegt fyrir Viktor. Staðan á þeim tímapunkti 25-15 fyrir Gróttu. Leikurinn hélt sama riðma sem eftir var þrátt fyrir að minni spámenn voru mættir á parketið hjá heimamönnum. Lokatölur, eins og áður segir, 31-20.

Af hverju vann Grótta?

Grótta fór inn í þennan leik fyrir fram sem stærra liðið og miðað við umræðuna fyrir tímabil var um einn af fáum skyldusigrum fyrir Gróttu að ræða á tímabilinu. Það gekk allt saman eftir og gott betur.

Hverjir stóðu upp úr?

Jakob Stefánsson, hornamaður Gróttu, var markahæsti maður vallarins með sjö mörk úr jafn mörgum skotum og hélt hinum þrautreynda Andra Þór Helgasyni á tréverkinu megnið af leiknum.

Báðir markverðir liðana áttu flottan leik og vörðu vel. Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Gróttu, með 17 varða bolta, en Ólafur Rafn Gíslason í marki ÍR gerði gott betur og varði 21 skot.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍR var það sem gekk allra verst í þessum leik. Tuttugu mörk skoruð í leik mun gefa lítið í þessari deild í vetur. Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, mun þurfa að skoða sóknarleikinn sérstaklega vel fyrir næsta leik og sennilega í allan vetur.

Hvað gerist næst?

Næsta fimmtudag fer Grótta austur fyrir fjall og mætir Selfyssingum.

ÍR mun spila sinn fyrsta heimaleik á nýjum glæsilegum heimavelli í ÍR-heimilinu við Skógarsel eftir viku þegar Haukar koma í heimsókn.

Bjarni Fritzson: „Við þurfum bara að leggja hart að okkur hvern einasta dag“

Bjarni Fritzson er orðinn þjálfari ÍR á nýjan leik.VÍSIR/BÁRA

„Ég var hrikalega ánægður með strákana svona í fyrri hluta fyrri hálfleiks, þá var þetta bara hörku leikur. Svo bara gerum við okkur seka um slæmt skotaval seinustu mínúturnar í fyrri hálfleik og Einar Baldvin (markvörður Gróttu) er náttúrulega sjóðandi í markinu allan leikinn og er að grípa fullt af boltum sem hann sendir í hraðaupphlaup. Mér fannst það svona skapa þetta bil sem við náðum svo ekki að brúa.“

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, hélt í það jákvæða eftir leik þrátt fyrir stórt tap.

„Ég var ánægður með margt. Við erum náttúrulega að vinna í fullt af hlutum, mér fannst það bara ganga mjög vel það sem við höfum verið að leggja áherslu á. Mér fannst varnarleikurinn ekkert alslæmur, ég var ánægður með keyrsluna og drive-ið í strákunum.“

Veturinn gæti orðið langur hjá Breiðhyltingum, en Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, sér bara tækifæri í því.

„Við bara vöknum á morgun og mætum á æfingu og lærum af þessum leik og svo höldum við bara áfram. Það er mjög mikið spunnið í þessa stráka og við þurfum bara að leggja hart að okkur hvern einasta dag og ég myndi segja að við munum bæta okkur mjög mikið í vetur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira