Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í Nantes unnu öruggan 12 marka sigur er liðið heimsótti Tremblay, 24-36. Viktor og félagar leiddu í hálfleik, 10-15, og sigur þeirra var aldrei í hættu í síðari hálfleik.
Þá unnu Darri Aronsson og félagar hans í Ivry einnig öruggan 15 marka sigur gegn Cherbourg eftir að hafa farið inn í hálfleikinn með tíu marka forskot. Staðan í hálfleik var 18-8 og lokatölur urðu 34-19.
Að lokum unnu Grétar Ari Guðjónsson og félagar hans í Selestat nauman eins marks sigur er liðið heimsótti Nancy, 26-27, og Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í PAUC Aix unnu öruggan sjö marka sigur gegn Sarreborug, 33-26. Íslendingaliðin fjögur verða því öll í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit.