Handbolti

Olís-spá karla 2022-23: Vonast til að fá lukkudísirnar í lið með sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH-ingar stefna hátt í vetur.
FH-ingar stefna hátt í vetur. vísir/vilhelm

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 2. sæti Olís-deildar karla í vetur.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir fyrir um gengi liðanna í Olís-deild karla en keppni í deildinni hefst með fjórum leikjum í dag, fimmtudaginn 8. september.

Íþróttadeild spáir FH 2. sæti Olís-deildar karla í vetur og Hafnfirðingar fari upp um tvö sæti milli ára.

Lítið hefur fallið með FH síðan Sigursteinn Arndal tók við liðinu fyrir tveimur árum. Tímabilið 2019-20, þar sem FH-ingar litu mjög vel út, var blásið af vegna kórónuveirufaraldursins, tímabilið 2020-21 féll FH út fyrir ÍBV í átta liða úrslitum á útivallarmörkum og á síðasta tímabili tapaði liðið fyrir Selfossi í framlengdum oddaleik í átta liða úrslitum.

Til að styrkja leikmannahópinn sótti FH tvær skyttur frá liðunum sem féllu, þá Einar Braga Aðalsteinsson og Jóhannes Berg Andrason. Þeir eru gríðarlega efnilegir en þurfa væntanlega einhvern tíma til að aðlagast mjög kerfisbundnum leikstíl FH.

FH var með næstbestu vörnina í Olís-deildinni á síðasta tímabili og Phil Döhler er alltaf traustur í markinu. Einar Bragi og Jóhannes Berg koma með nýja vídd í sóknarleikinn og FH þarf ekki að treysta á að lappirnar á Agli Magnússyni haldi.

Kjarninn í FH-liðinu er öflugur og reyndur og breiddin mikil. Þá eru FH-ingar alltaf erfiðir heim að sækja og tapa sjaldnast í Kaplakrika. Eftir erfiðan endi á síðustu tímabilum vonast FH-ingar til að stíga sigurdans með lukkudísunum næsta vor.

Gengi FH undanfarinn áratug

  • 2021-22: 4. sæti+átta liða úrslit
  • 2020-21: 2. sæti+átta liða úrslit
  • 2019-20: 2. sæti
  • 2018-19: 4. sæti+átta liða úrslit+bikarmeistari
  • 2017-18: 3. sæti+úrslit
  • 2016-17: Deildarmeistari+úrslit
  • 2015-16: 6. sæti+átta liða úrslit
  • 2014-15: 4. sæti+átta liða úrslit+bikarúrslit
  • 2013-14: 4. sæti+undanúrslit
  • 2012-13: 2. sæti+undanúrslit

Lykilmaðurinn

Ásbjörn Friðriksson er með meirapróf í að stjórna handboltaliði.vísir/hulda margrét

Gæðastjórinn í Kaplakrika undanfarin ár. Ásbjörn Friðriksson er einn allra besti leikmaður sem hefur spilað fyrir FH og hefur átt risastóran þátt í öllum titlunum sem liðið hefur unnið á þessari öld. Fluglæs á leikinn, skynsamur og gerir aðra leikmenn betri. Ásbjörn skilar alltaf gommu af mörkum sjálfur og er frábær vítaskytta. Hefur hins vegar átt það til að gefa eftir þegar líða tekur á veturinn.

Athugasemd: Þetta er afritaður texti frá spánni fyrir síðasta tímabil. Ekkert hefur breyst síðan þetta var skrifað.

Félagaskiptamarkaðurinn

Komnir:

  • Jóhannes Berg Andrason frá Víkingi
  • Einar Bragi Aðalsteinsson frá HK
  • Axel Hreinn Hilmisson frá Fjölni
  • Arnar Steinn Arnarsson frá Víkingi

Farnir:

  • Bergur Elí Rúnarsson til Vals
  • Ísak Rafnsson til ÍBV
  • Gytis Smantauskas til Litáen
  • Svavar Ingi Sigmundsson hættur

Markaðseinkunn (A-C): A

Fortíðarhetja sem gæti nýst í vetur

Við fyrstu sýn virðist lítið vanta í leikmannahóp FH enda með afbrigðum vel skipaður. En ef það er einhver staða sem væri hægt að styrkja væri það helst vinstri hornið. Og hver væri betri í það en Gunnar Beinteinsson sem lék með FH í áraraðir og það í báðum hornunum. Líkamlegt ástand er ekki vandamál enda stundar Gunnar CrossFit og aðrar íþróttir af kappi og stenst sér yngri mönnum í Olís-deildinni eflaust snúning þegar kemur að líkamlegu ásigkomulagi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×