Skoðun

Hvers vegna óttast stjórn­völd sam­keppni svona mikið?

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Fólk hræðist stundum breytingar. Það er auðveldara að halda sig við vanann en tækifæri glatast hins vegar þegar vaninn fær alltaf að ráða för. Nýlega voru sagðar fréttir af dómsmáli þar sem hin undirliggjandi saga er einmitt af óþarfa hræðslu við breytingar. Málið snýst um afstöðu hins opinbera til að bjóða út verkefni og opinber innkaup. Landlæknisembættið hefur stefnt nýsköpunarfyrirtækinu Köru Connect fyrir dóm. Áður hafði kærunefnd úrskurðað embættinu í óhag fyrir að hafa ekki farið að lögum um útboð á hugbúnaðarkerfum og um þróun á fjarfundabúnaði.

Heilbrigð samkeppni er góð

Stóra myndin varðar afstöðu stjórnvalda til heilbrigðrar samkeppni og afstöðu stjórnvalda til nýsköpunar. Hin pólitíska spurning er þess vegna: hvers vegna stjórnvöld líta ekki það sem jákvætt að útboð fari fram? Hvers vegna því er ekki bara fagnað að samkeppni ríki í þágu betri heilbrigðisþjónustu. Reglur um innkaup hins opinbera eru settar í þágu almennings. Grunnhugsunin er að tryggja virka samkeppni og að vel sé farið með peninga hins opinbera. Markmiðið er um leið að efla nýsköpun og þróun. Það er augljóst hagsmunamál fyrir alla.

Stofnanir spegla pólitík stjórnvalda á hverjum tíma. Kerfin eru mannanna verk. Kerfin bæði geta og eiga að þróast í takt við samfélagið. Ríkisstjórnin hefur nú starfað í 5 ár. Allt síðasta kjörtímabil hennar einkenndist af furðulegri hræðslu stjórnvalda við sjálfstætt starfandi fagaðila í heilbrigðisþjónustu. Veggir voru reistir sem lengdu bið fólks eftir heilbrigðisþjónustu og hafa sennilega stuðlað að því að læknar skila sér ekki nægilega vel heim að loknu sérfræðinámi erlendis.

Tækifærin í nýsköpun eru endalaus

Ég bjóst við því að það yrði stefnubreyting í heilbrigðismálum með komu Willums Þórs Þórssonar í heilbrigðisráðuneytið. Hann hefur lagt sig fram um að hlusta. Nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar ber með sér sterka áherslu á nýsköpun og málaflokkurinn fékk aukið vægi með sérstöku ráðuneyti nýsköpunarmála. Í þessu samhengi er þetta dómsmál enn einkennilegra. Hvers vegna er hið opinbera þá að leggja mikinn þunga í að koma í veg fyrir heilbrigða samkeppni og hamast gegn nýsköpun? Hvar er hvatningin til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu og tækni?

Ég sendi ég heilbrigðisráðherra fyrirspurn um viðbrögð hans þegar niðurstaðar kærunefndarinnar lá fyrir í vetur. Í svari hans sagði m.a. að niðurstaðan í málinu ætti að vera hvatning og tækifæri til að fara yfir innkaup hins opinbera á þessu sviði. Ég er sammála því að þarna leyndist tækifæri. Tækifæri til að staldra við og gera breytingar til að virkja samkeppni og styðja við nýsköpun. Heilbrigðisráðherra nefndi líka að varðandi innkaup embættis landlæknis hafi hann yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir. Almennt eftirlit með því að undirstofnanir heilbrigðisráðherra starfi í samræmi við lög, t.d. um opinber innkaup. Og hann nefndi líka að hann getur tekið mál til skoðunar hjá sér ef hann telur svo ekki vera.

Staðreyndin er auðvitað að það er óþarfi að fara með mál eins og þetta fyrir dóm. Það er ekkert sem bannar stjórnvöldum að láta á málið reyna fyrir dómstólum en í því felst hins vegar óheilbrigð pólitísk afstaða til samkeppni og til nýsköpunar. Hvers vegna ekki frekar að rifja upp orð heilbrigðisráðherra sjálfs um að þessi niðurstaða eigi að vera hvatning og tækifæri? Hvatning um að hætta að hræðast breytingar og horfa þess í stað á tækifærin sem við blasa þegar kraftar nýsköpunar eru leystir úr læðingi?

Málstofa vel meinandi fólks?

Aukaverkun svona dómsmáls eru skilaboðin sem nýsköpunarfyrirtæki fá. Það er líklegt til að fæla frumkvöðla frá. Það er vond niðurstaða fyrir samfélagið allt. Eitt af þremur helstu áhersluatriðum heilbrigðisstefnu stjórnvalda til 2030 er að styðja við nýsköpun. En þá stefnu þarf að sýna í verki. Þegar ríkisstjórnin gerir ekki það sem hún talar fyrir verður tilfinningin sú að þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna séu bara þátttakendur í málstofu vel meinandi fólks. Nú ættu heilbrigðisráðherra og nýsköpunarráðherra að virkja stefnu sína í heilbrigðismálum og í nýsköpunarmálum. Fagna nýsköpun í stað þess að berjast gegn henni. Þau hafa bæði tækifæri og völd sem til þarf. Svo einfalt er það.

Höfundur er þingmaður ViðreisnarAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.