Golf

Næst efsti maður heimslistans gengur til liðs við LIV: „Peningarnir spiluðu klárlega hlutverk“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cameron Smith ákvað að elta peningana.
Cameron Smith ákvað að elta peningana. Tracy Wilcox/PGA TOUR via Getty Images

Ástralski kylfingurinn Cameron Smith, næst efsti maður heimslistans í golfi og nýkrýndur sigurvegari á Opna breska, er genginn til liðs við sádí-arabísku LIV-mótaröðina. Hann segir að peningar hafi átt sinn þátt í ákvöðruninni.

Þessi 29 ára kylfingur er nú sá kylfingur sem situr hvað hæst á heimslistanum í golfi sem gengið hefur til liðs við LIV-mótaröðina.

Hann fagnaði sigri á Opna breska meistaramótinu í golfi um miðjan júlí, en eftir að sigurinn var í höfn vildi hann ekki svara spurningum blaðamanna um framtíð hans og þann möguleika að yfirgefa PGA-mótaröðina fyrir LIV-mótaröðina.

Smith verður meðal kylfinga sem taka þátt á næsta móti LIV-mótaraðarinnar sem fram fer í Boston um næstu helgi, en kylfingurinn sagði í samtali við vefmiðilinn GolfDigest að peningar hafi klárlega haft áhrif á ákvörðun hans. Á LIV-mótaröðinni fá kylfingar greitt fyrir það að taka þátt, en á PGA-mótaröðinni fá kylfingar verðlaunafé eftir því hversu ofarlega þeir lenda í hverju móti fyrir sig.

„Peningarnir spiluðu klárlega hlutverk í ákvarðanatökunni. Ég ætla ekki að hunsa það og segja að það hafi ekki verið ein af ástæðunum,“ sagði Smith.

„Þetta var ákvörðun af fjárhagslegu eðli og tilboð sem ég gat ekki neitað,“ bætti Smith við, en sagði þó einnig að stór ástæða þess að hann hafi ákveðið að slá til hafi verið að nú getur hann eytt meiri tíma í heimalandi sínu, Ástralíu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.