Körfubolti

Elvar Már: „Þetta var liðssigur þar sem við lögðum allt í þetta“

Árni Jóhansson skrifar
Elvar Már Friðriksson reynir skot gegn Úkraínu
Elvar Már Friðriksson reynir skot gegn Úkraínu Vísir / Hulda Margrét

Elvar Már Friðriksson var enn og aftur lykilmaður í því að ná í sigur íslenska körfuboltalandsliðsins en nú lágu Úkraínu menn í grasinu eftir framlengdan leik í Ólafssal fyrr í kvöld. Leikurinn endaði 91-88 en að mati Elvars var það eljan og íslenska geðveikin sem skilaði sigrinum.

„Í raun og veru var það bara elja og vinnusemi sem skilaði. Þetta var fáránlegur baráttu sigur. Við náðum einhvern veginn að loka teignum og gera þeim erfitt fyrir í skotunum sínum. Þeir voru með fáránlega háa liðsuppstillingu inn á og allir þurftu bara að fara inn og berjast í fráköstunum. Við náðum að vinna hana í lokin eftir að þeir rústuðu henni í fyrri hálfleik. Einhvern veginn náðum við að klafsa út sigur því bensínið var alveg búið“, sagði Elvar þegar hann var spurður að því hvað hafi skilað sigri Íslands í kvöld.

Næst var hann þá spurður hvort gamla góða íslenska geðveikin hafi skilað sigrinum.

„Já við töluðum um það fyrir leikinn að það væri okkar drifkraftur og að við værum ekkert góðir nema að vera með íslensku geðveikina. Arnar og Kristófer komu svo sannarlega inn í liðið í dag og voru algjörir lykilmenn í dag.“

Elvar var svo spurður út í liðsheild íslenska landsliðsins en það voru ansi margar hetjur í leiknum í dag á mismunandi tímabilum.

„Nákvæmlega. Menn eru kannski ekki í besta forminu núna þar sem tímabilið er að byrja hjá flestum núna en allir áttu sín augnablik í leiknum og það skóp þetta meðal annars. Þetta var liðssigur þar sem við lögðum allt í þetta. Þetta var bara geggjað.“

Að lokum var Elvar spurður út í hvað leikmenn væru að horfa í varðandi möguleika liðsins í riðlinum. Möguleikinn er svo sannarlega til staðar.

„Já hann er klárlega til staðar. Við horfum í það að vinna Georgíu í næsta leik og þá höldum við draumnum lifandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×