Innlent

Taka þurfi á launa­þjófnaði af meiri festu en hingað til

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir launaþjófnað ekki eiga að líðast í samfélaginu og vill taka á slíkum málum af meiri festu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir launaþjófnað ekki eiga að líðast í samfélaginu og vill taka á slíkum málum af meiri festu. Vísir/Vilhelm

Félagsmálaráðherra segir unnið að því að setja skýrari lagaramma um launaþjófnað, en samstaða hafi ekki náðst um aðgerðir meðal aðila vinnumarkaðarins. Grunur er um stórfelldan launaþjófnað á tveimur veitingastöðum í Reykjavík, í eigu sömu aðila. 

Í gær var greint frá því að grunur léki á að milljónir króna hefðu verið hafðar af þremur erlendum starfsmönnum veitingastaðanna Flame og Bambus. Starfsmennirnir þrír voru félagsmenn í Matvís, sem á aðild að Fagfélögunum, en þau fengu ábendingu um málið og könnuðu nánar.

Í samtali við fréttastofu í gær sagði Benóny Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, að launaþjófnaðarmál komi inn á þeirra borð í hverri viku. Þeim hafi fjölgað að undanförnu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir um grafalvarlegt mál að ræða.

„Við höfum verið að vinna að því að setja skýrar lagaramma utan um þetta. Það hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu hjá mér um all langan tíma. Það kom frumvarp fram á þingi núna í vor, en það hefur ekki enn náðst samstaða um að ná almennilega utan um þetta meðal aðila vinnumarkaðarins,“ segir Guðmundur Ingi.

Vill takast á við málin af meiri festu

Eðli málsins samkvæmt er nokkuð erfitt að kortleggja hversu umfangsmikill launaþjófnaður er hér á landi. Oft séu það aðilar vinnumarkaðarins sem uppgötvi brotin.

„Það er síðan spurningin: Hvernig á að takast á við það? Hvernig á að refsa fyrir launaþjófnað? Það er hið lagatæknilega atriði sem stjórnvöld, í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, þurfa að finna út úr. Við erum að vinna í því að reyna að koma á betrumbótum hvað það varðar. Ég tel persónulega, og mín pólitík er sú, að við eigum að takast á við þetta mál af mun meiri festu heldur en verið hefur.“

Þá sé mögulega hægt að ráðast í að kynna fólki sem kemur hingað til lands réttindi sín betur.

„Og launaþjófnaður er auðvitað eitthvað sem á ekki að líðast í samfélaginu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×