Handbolti

Eyjamenn leika báða Evrópuleikina á heimavelli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Búast má við því að stuðningsmenn ÍBV muni fylla stúkuna í Eyjum þegar HC Holon mætir í heimsókn.
Búast má við því að stuðningsmenn ÍBV muni fylla stúkuna í Eyjum þegar HC Holon mætir í heimsókn. Vísir/Hulda Margrét

Báðar viðureignir ÍBV gegn ísraelska liðinu HC Holon í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni karla í handbolta munu fara fram í Vestmannaeyjum í næsta mánuði.

Eyjamenn sleppa því við langt ferðalag til Ísrael, en leikirnir fara fram helgina 10.-11. september. Fyrri leikur liðanna verður spilaður laugardaginn 10. september klukkan 18:00 og sá síðari á sama tíma degi síðar. Sigurlið einvígisins tryggir sér sæti í annarri umferð á kostnað tapliðsins sem situr eftir með sárt ennið.

ÍBV er eitt af þremur íslenskum liðum sem tekur þá í Evrópubikarkeppninni í ár. Haukar og KA taka einnig þátt, en þau sitja hjá í fyrstu umferð. ÍBV verður því fyrsta íslenska liðið til að leika Evrópuleik á þessu tímabili.

Leikir ÍBV gegn HC Holon hafa þá áhrif á leikjaniðurröðun Olís-deildarinnar sem hefst fimmtudaginn 8. september. Eyjamenn áttu að leika gegn Herði frá Ísafirði í fyrstu umferð föstudaginn 9. september, en vegna þátttöku þeirra í Evrópubikarkeppninni hefur þeim leik verið frestað til sunnudagsins 2. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×