Viðskipti innlent

Stýri­vaxta­hækkanir komi verst við þá sem keyptu hús­næði í Co­vid

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir kallar eftir því að stjórnvöld grípi til sértækra aðgerða.
Kristrún Frostadóttir kallar eftir því að stjórnvöld grípi til sértækra aðgerða. vísir

Þingmaður Samfylkingarinnar kallar eftir því að stjórnvöld ráðist í sértækar aðgerðir til að bregðast við stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem kynnt var í dag. Hækkunin komi sérstaklega illa niður á þeim sem keyptu húsnæði í heimsfaraldri með hvatningu fjármálaráðherra og seðlabankastjóra. 

Seðlabankinn tilkynnti í dag 0,75 prósentustiga hækkun á stýrivöxtum en þeir hafa ekki verið hærri hér á landi síðan 2016. Þetta er áttunda skipti í röð sem stýrivextir eru hækkaðir, nú úr 4,75% í 5,5%. Verðbólga mældist 9,9 prósent í júlí en bankinn gerir nú ráð fyrir að hún verði 11 prósent síðar á árinu. 

Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir launafólk finna mest fyrir hækkun á vaxtabyrði húsnæðislána. 

„Stýrivaxtabreytingar eru til þess gerðar að hafa bein áhrif á vaxtakjör í bönkum. Það er ekki sjálfgefið að það fylgi alltaf eitt prósentustig fyrir eitt prósentustig. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta eru ekki vextirnir sem þú ert að greiða en þetta hefur áhrif á hvernig bankar geta fjármagnað sig á markaði og þá kostnað þeirra að reka sig og lekur út í almenn lánakjör fólks,“ sagði Kristrún í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. 

„Þessi hækkunarhrina sem við höfum verið í undanfarnar vikur, þetta er búið að gerast ótrúlega hratt, þetta er til þess fallið að hækka verulega vaxtabyrði fólks sem er með húsnæðislán. Þetta fer náttúrulega út í fyrirtækjalán og önnur lán líka en mesta breytingin sem fólk finnur fyrir í daglegu lífi snýr að húsnæðisbyrði.“

Aðgerðir Seðlabankans til þess fallnar að hafa áhrif á fólk

Líklegt sé að bankarnir bregðist hratt við stýrivaxtahækkun Seðlabankans og almenningur finni fyrir henni strax í kjölfarið. 

„Seðlabankinn er að gera þetta til þess að þetta hafi áhrif á fólk. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að það eru skilaboðin frá Seðlabankanum. Þeir eru að reyna að herða ólina hjá fólki með mjög almennum hætti. Við höfum rætt þetta áður í þessum þætti að þetta er mjög breitt tól til að hafa áhrif á hagkerfið,“ segir Kristrún. 

„Stóra spurningin er núna hverjir þola þessar hækkanir, hver eru almenn áhrif hækkana og síðan hver gætu verið mjög neikvæð áhrif þessara hækkana á ákveðna hópa og þá hvort eigi að ráðast í ákveðnar mótvægisaðgerðir á móti þessum stýrivaxtahækkunum.“

Þeir sem tóku lán fyrir Covid mun betur settir

Skipta þurfi fólki með húsnæðislán upp í tvo hópa. Annars vegar þá sem voru búnir að taka húsnæðislán fyrir kórónuveirufaraldurinn og hins vegar þá sem fóru inn á húsnæðismarkað í miðjum faraldri. Stjórnvöld hafi farið í hraðar vaxtalækkanir í heimsfaraldrinum og skrúfað frá gífurlegu magni af lánsfé inni í bankakerfinu. 

„Þetta eru tæki sem eru notuð til að stýra hversu mikið er hægt að lána af því að bankarnir, í mjög einföldu máli, geta ekki lánað endalaust. Það eru ákveðin tæki sem Seðlabankinn setur stopp og go á. Stærsti parturinn af þróun á húsnæðismarkaðnum undanfarin tvö ár snýr að fjármagnsflæði, magni fjármagns sem var hægt að lána út en ekki endilega verðið á því, sem eru vextirnir,“ segir Kristrún. 

„Það var farið í þá vegferð þegar fyrirtæki voru í tekjustoppi og fólk var atvinnulaust að örva eignamarkað, örva húsnæðismarkaðinn.“

Vandinn hafi ekki verið á húsnæðismarkaði heldur það að svona miklu fjármagni hafi verið dælt á markaðinn á skömmum tíma. 

„Þá rjúka allir út um sömu dyrnar á sama tíma og það sjá allir hvað gerist. Þá rýkur húsnæðisverð upp,“ segir Kristrún. 

Fólk komið í vítahring vegna hækkandi vaxta

Nú sé staðan þannig að fólk á húsnæðismarkaði sé tvískipt: Þeir sem keyptu fyrir Covid og þeir sem keyptu á meðan Covid var.

„Hópurinn sem var skuldsettur áður en við fórum í Covid fékk vaxtalækkunina en hafði kannski tekið lán fyrir húsi sem var ekkert rosalega dýrt. Nú hækkar greiðslubyrðin aftur og þá ræður fólk kannski vel við það því áður var það að borga aðeins meira og nú þarf það að fara aftur upp í þá tölu,“ segir Kristrún. 

„Hópurinn sem er langviðkvæmastur núna er hópurinn sem kom inn á markaðinn á þessum tíma og keypti á uppsprengdu verði. Hópurinn sem leið fyrir það að það var farið í þessa rosalega hröðu örvun og hafði engra kosta völ, líka út af skorti á húsnæðisstefnu gagnvart leigumarkaði og hagkvæmu húsnæði og varð að fara þessa leið að skuldsetja sig mikið.“

Margir í þeim hópi séu nú komnir í vítahringt og hafi jafnvel bara fengið greiðslumat fyrir láni vegna þeirra ofurlágu vaxta sem voru á þeim tíma sem þeir fengu lánið. 

„Ég myndi gera greinarmun á þessum tveimur hópum. Þetta er hópur sem kom inn á mjög dýran markað á lágum vöxtum, gerði sín plön út frá því, hlustaði á fjármálaráðherra í aðdraganda kosninga og seðlabankastjóra á síðasta og þarsíðasta ári tala um að við værum komin inn í nýtt vaxtaumhverfi, lágvaxtaumhverfi. Þetta var fjármálaráðgjöfin sem fólk fékk og þetta er hópur sem ég hef áhyggjur af núna.“

Stjórnvöld grípi til sértækra úrræða fyrir þá yngstu og skuldsettustu

Hún segir það ábyrgð stjórnvalda að verja þessa hópa og ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá. Sumir hafi verið með hagstætt lán á hagstæðu húsi og þurfi ekki aðstoð stjórnvalda. 

„Þá er hægt að fara í sértæk úrræði eins og að skoða mögulega vaxtabætur til fólks til að draga úr vaxtakostnaði með beinum greiðslum sem koma úr ríkissjóði. Þetta er eitthvað sem þarf að útfæra sérstaklega hjá ríkisstjórninni vegna þess að það er búið að útvatna vaxtabótakerfið á Íslandi gríðarlega undanfarin tíu ár,“ segir Kristrún. 

„Það er hvorki fugl né fiskur, það fær eiginlega enginn vaxtabætur í dag nema einstaklingar nærri því undir lágmarkstekjum. Þannig að við getum ekki treyst á að þetta sé sjálfkrafa tæki sem komi inn núna þannig að það þarf að fara í sérstakar aðgerðir fyrir yngstu hópana og skuldsettustu hópana.“

Hún segir slíkar aðgerðir ekki til þess fallnar að gera hækkun Seðlabankans að engu eða vinna að fullu á móti henni. 

„Þetta snýst um að þegar er verið að snúa svona hratt við olíuskipinu, farið í hraðar vaxtalækkanir, mikið af fjármagni pumpað inn á markaðinn með ómarkvissum hætti á hröðum tíma og svo ætlarðu að kippa því út úr kerfinu að þetta falli ekki ójafnt á fólk eftir þörf og getu. Þar geta stjórnvöld með pólitískum ákvörðunum komið inn í og stillt skrúfurnar aðeins af.“


Tengdar fréttir

„Veltur mjög mikið á því hvernig verður samið“

Þróun verðbólgunnar til lengri tíma litið veltur að miklu leyti á komandi kjaraviðræðum að sögn seðlabankastjóra. Gert er ráð fyrir að hún haldi áfram að aukast og nái tveggja stafa tölu síðar á árinu.

Seðla­bankinn hækkar stýri­vexti um 0,75 prósentur

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,75 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, fara því úr 4,75 prósent í 5,5 prósent. Þetta er áttunda stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×