Handbolti

Eyjamenn sigruðu Ragnarsmótið og heimamenn tóku þriðja sætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
ÍBV bar sigur úr býtum á Ragnarsmótinu í handbolta.
ÍBV bar sigur úr býtum á Ragnarsmótinu í handbolta. UMF Selfoss

ÍBV bar sigur úr býtum á Ragnarsmótinu í handbolta sem fór fram á Selfossi í vikunni, en leikið var til úrslita í dag. Eyjamenn mættu Aftureldingu í úrslitum og unnu öruggan 13 marka sigur, 35-22.

Ragnarsmótið er árlegt minningarmót sem haldið er á Selfossi til minningar um Ragnar Hjálmtýsson sem lést í bílslysi árið 1988, aðeins 18 ára að aldri. Mótið hefur verið haldið frá árinu 1989 og var þetta því í 33. skipti sem mótið er haldið.

Úrslitaleikur ÍBV og Aftureldingar var nokkuð jafn framan af og Eyjamenn leiddu aðeins með tveimur mörkum í hálfleik, 15-13. Eyjamenn skelltu hins vegar í lás á lokametrum leiksins og Afturelding skoraði aðeins eitt mark á seinustu 16 mínútum leiksins.

Eyjamenn gengu á lagið og unnu að lokum öruggan 13 marka sigur, 35-22, og tryggðu sér um leið sigur á Ragnarsmótinu.

Rúnar Kárason var markahæstur í liði ÍBV með sjö mörk, en Árni Bragi Eyjólfsson dró vagninn í liði Aftureldingar og skoraði sex mörk.

Í leiknum um þriðja sæti mótsins mættust heimamenn í Selfossi og Fram. Framarar leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 19-17, og náðu þriggja marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn.

Selfyssingar snéru taflinu þó sér í vil og unnu að lokum sex marka sigur, 37-31. Ísak Gústafsson var markahæstur í liði Selfyssinga með sjö mörk, en Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var atkvæðamestur í liði Fram með tólf stykki.

Þá mættust Hörður og KA í leiknum um fimmta sæti þar sem Vestfirðingarnir höfðu betur, 34-31. KA-menn leiddu í hálfleik, 16-15, en Harðarmenn reyndust sterkari í síðari hálfleik og tryggðu sér fimmta sæti mótsins með þriggja marka sigri.

Jón Ómar Gíslason skoraði tíu mörk í liði Harðar, en í liði KA var Einar Birgir Stefánsson markahæstur með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×