Skoðun

Þorpið mitt

Ágústa Ragnarsdóttir skrifar

Elsku Þorlákshöfnin mín, fallega þorpið mitt þar sem hefur tekist að rækta vin í því sem áður var eyðimörk, skapa vænt umhverfi þar sem í stórum dráttum manneskja og umhverfi hafa átt ágæta samleið, þar sem tekist hefur með samstöðu íbúa að losa sig við t.d. hrikalega lyktarmengandi iðnað sem lengi vel var mikill akkilesarhæll íbúabyggðar bæði hvað varðaði vöxt og vellíðan, staður sem byggðist upp á matvælaframleiðslu og var á þeirri vegferð í stækkandi, fjölbreyttari og nútímalegri mynd … að ég hélt.

Þorp er í eðli sínu lítið, það þýðir að hafnar- og iðnaðarsvæði eru í flestum tilfellum í bakgarðinum hjá íbúum þess. Þess vegna er enn þá viðkvæmara en ella að planta niður alls konar ósóma þar (reyndar alltaf slæmt). Ég bý í elsta hluta þorpsins þó ekki næst höfn og iðnaði, samt eru ekki nema 500 metrar í loftlínu yfir í núverandi vikurhauga og það verður ekki nema u.þ.b. kílómetri að fyrirhugaðri uppbyggingu Heidelberg sem spannar svæðið frá Hafnarvegi að golfvelli (suður-norður) og frá Skötubót að tollsvæði Smyriline (austur-vestur). Þetta er ekkert smá flæmi fyrir svona hroða eða 49.000 fermetrar. Upp við og ofan í útivistarperlum…

Hér má sjá það svæði sem úthlutað hefur verið til Heidelberg, svæði sem vissulega er ætlaði iðnaði en ég held að flestir hafi nú séð fyrir sér fjölbreyttari iðnað og ekki öll eggin í sömu körfu.Ágústa Ragnarsdóttir

Mér verður bókstaflega ómótt af tilhugsuninni einni saman um að þessar þessar hugmyndir verði að veruleika. Þetta er svo firrt í alla staði, bæði á stórum og smáum skala, út frá þorpinu, nærumhverfi þess, landinu, Jörðinni. Út frá manneskju og náttúru, út frá fjölbreytileika mannlífs þorpsins, út frá lífsgæðum, út frá vegakerfi, út frá loftslagsmálum. Og að reyna að klessa „grænum miða“ á svona framkvæmdir er algjört lýðsskrum framkvæmdaaðila, trix sem er velþekkt um allan heim.

Þið kæru sveitungar sem sitjið í Skipulags- og umverfisnefnd Ölfuss annars vegar og kvittuðu undir m.a. þetta á fundi þann 21. júlí sl.:

Á fyrrgreindum forsendum (sem var útlisting á því hversu frábært nýsköpunarverkefni þetta er á sviði loftlagsmála) sækir fyrirtækið ( Heidelberg Cement Pozzolanic Materials (HPM) ehf.) um lóðirnar Hafnarvegur 3, 5, 7 Austurbakki 1, 2, 3, 4, 6 Hafnarbakki 14, 16, 18 og Bakki 2.

Nefndin fagnar þeim stórtæku áformum sem lýst er og samþykkir fyrir sitt leyti að úthluta tilgreindum lóðum á fyrrgreindum forsendum …“ o.s.frv.

og í Bæjarráði Ölfuss hins vegar sem á fundi sínum þann 4. ágúst staðfesti þennan gjörning (Bæjarstjórnin hefur ekki fundað síðan 9. júní) – ég vil minna á að það má skipta um skoðun og mikið innilega vona ég að sem flest ykkar gerið það og það sé ekki of seint. Því af hverju að gefa vilyrði fyrir lóðum og festa þær þannig ef hlutirnir eru ekki komnir á ákveðinn stað í ferlinu?

Með von um að það verði áfram búandi í þorpinu mínu.

Höfundur er íbúi í Þorlákshöfn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×