Körfubolti

NBA-stjörnur fóru illa með mömmu sína og son í körfuboltasalnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jayson Tatum með son sinn Deuce og við hlið söngvarans Nelly eftir einn leik Boston Celtics í lokaúrslitunum í ár.
 Jayson Tatum með son sinn Deuce og við hlið söngvarans Nelly eftir einn leik Boston Celtics í lokaúrslitunum í ár. Getty/Maddie Meyer

NBA-stjörnurnar Jayson Tatum og Royce O'Neale sýna engan miskunn á körfuboltavellinum og skiptir þar engu þótt þeir séu að leika sér með móður sinni eða syni.

Tatum er 24 ára stórstjarna Boston Celtics liðsins og O'Neale er 29 ára framherji Brooklyn Nets en hann hefur spilað með Utah Jazz undanfarin fimm ár.

Mamma Royce O'Neale var til í leik, einn á móti einum, við son sinn en hún réði ekki alveg við þennan 196 sentimetra og 103 kílóa skrokk. O'Neale bakkaði með hana undir körfuna og greyið konan endaði að lokum í gólfinu.

O'Neale grínaðist með myndbandið á samfélagsmiðlum og skrifaði: Enginn er öruggur í búðunum. Elska þig samt mamma, skrifaði Royce með fullt af broskörlum eins og sést hér fyrir ofan.

Frábær frammistaða Jayson Tatum með Boston liðinu hefur auðvitað vakið mikla athygli á honum og þá hefur sviðsljósið oft farið á kokhraustan son hans Deuce. Sá elska sviðsljósið og er þegar orðin stjarna á hliðarlínunni.

Deuce heldur upp á fimm ára afmælið sitt í desember en hann var með pabba sínum í körfuboltabúðum á dögunum.

Það náðist á myndband þegar Deuce var að reyna að skora á pabba sinn en hinn 203 sentimetra hái Jason vildi ekki sjá slíkt og varði skotið hans lengst út í sal.

Deuce fær greinilega ekkert gefið frá pabba sínum inn á körfuboltavellinum ekki frekar en aðrir.

Það má sjá þetta hér fyrir ofan og neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×