Skoðun

Lestur barna er á ábyrgð foreldra

Guðrún Kjartansdóttir skrifar

Mikið hefur verið í umræðunni undanfarinn tíma að lestur barna (sérstaklega drengja) sé ekki nógu góður og skólakerfið sett inn í þá umræðu. Kennarar þurfi að leggja auknar áherslur á lestur barna svo börnin geti lesið sér til gagns við lok grunnskólagöngu.

Lítið hefur farið fyrir umræðu foreldra í þessar umfjöllun. Lestur er á ábyrgð foreldra. Foreldrum er skylt að láta börnin sín lesa heima. Það eru fyrst og fremst foreldrar sem geta stuðlað að aukinni lestrargetu barna sinna. Ég mæli með að foreldrar fari með börnin sín á hverfisbókasafnið og finni bækur sem vekja áhuga hjá börnunum.

Skjánotkun barna er á ábyrgð foreldra og það er ekkert nýtt á nálinni að börn eyða oft á tíðum of miklum tíma fyrir framan skjáinn. Ég tel að það hafi áhrif á lestrarhæfni nemenda við lok grunnskólagöngu. Strákar eyða almennt miklum tíma í tölvuleiki og stelpur í samfélagsmiðla á unglingsárum. Tíma sem hægt er að verja við að lesa bækur. Hér áður fyrr voru börn ekki með aðgengi að snjallsímum og tölvum og eyddu frítíma sínum í lestur. Því miður er það ekki raunin í íslensku samfélagi í dag.

Eins og áður hefur komið fram þá er ábyrgðin ekki öll hjá kennurum barnanna, heldur bera foreldrar ábyrgð á lestrinum. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef börnin sjá foreldra sína lesa bækur þá getur það stuðlað að auknum lestri þeirra. En raunin er sú að foreldrar horfa mikið á skjáinn á símanum sínum og þá finnst börnunum það sjálfsagt mál að nýta tímann sinn í....niðursokkin í skjáinn.

Bækur eru ekki geymdar í bókahillum í eins miklu magni og var hér áður fyrr. Núna eru bækur notaðar sem skrautmunir á heimilum. Ég mæli með að bækur séu í geymdar þannig að þær séu aðgengilegar fyrir börnin.

Foreldrar – verið góðar fyrirmyndir og stuðlið að auknum lestri barna ykkar. Það að vera læs við lok grunnskóla er aðalfarvegur frekara náms.

Höfundur er grunnskólakennari.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.