Skoðun

Fram­tíðar­sýn

Anton Már Gylfason skrifar

Ég er svo heppinn að framtíðin hefur alltaf staðið mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Eftir að hefðbundnum æskuhugmyndum um að verða lögga eða slökkviliðsmaður sleppti var ég lengi harðákveðinn í að verða rafeindavirki. Því innritaðist ég í grunndeild rafiðna í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og ætlaði svo í framhaldinu að hefja nám í faginu í Iðnskólanum í Reykjavík, þar sem ekki var boðið upp á nám í rafeindavirkjun í Breiðholtinu. Það var hins vegar svo gaman í FB, námið var gott og félagsskapurinn í skólanum enn betri. Því var stefnan sett á rafvirkjun, en henni var hægt að ljúka í Breiðholtinu.

Eftir að ég hafði lokið sveinsprófinu gerðist eitthvað sem varð til þess að ungi maðurinn breytti um kúrs. Nú var rafmagnstæknifræði framtíðin og því var haldið í frumgreinadeild Tækniskóla Íslands til þess að undirbúa nám í fræðunum. Þar, í áfanga um hugmyndasögu, opnuðust augu mín fyrir töfrum heimspekinnar. Næstu fimm árum var því varið í að ljúka meistaranámi í greininni sem sumir telja móður allra vísinda. Þar sem starfsheitið „heimspekingur“ er síst ávísun á öruggt framtíðarstarf kallaði staðan sem upp var komin á nýja sýn og var stefnan sett á að menntast til kennslustarfa.

Allan þennan tíma og í gegnum allar þessar breytingar var þó framtíðarsýnin kýrskýr – ég var alltaf á leiðinni eitthvað. Og er þá komið að kjarna málsins sem ramma má inn með eftirfarandi spurningu: Hvernig geta menntayfirvöld, skólar landsins og starfsfólk þeirra liðsinnt landsins æskulýð – hvernig förum við að því að móta framtíðina saman?

Það skal tekið fram strax að undirritaður hefur því miður ekki einhlítt svar við þessari spurningu en mig langar að velta henni fyrir mér með hliðsjón af reynslu minni eftir nærri 25 ára starf við kennslu og stjórnun í framhaldsskóla.

Nemendurnir

Ef allra grófustu nálgun er beitt má segja að í framhaldsskólum landsins séu tvær megingerðir nemenda. Annars vegar eru hjá okkur nemendur sem hafa mjög skýra sýn á hvað þau langar að gera „þegar þau eru orðin stór“. Þau hafa með einum eða öðrum hætti náð að mála mynd framtíðarinnar með ákveðnum strokum og enginn vafi leikur á því hvert myndefnið er. Hins vegar höfum við hóp nemenda sem ekki býr svo vel að hafa málað upp slíka mynd. Þeirra verk er óræðara og erfitt getur verið að gera sér grein fyrir því hvert myndefnið er.

Fyrrnefnda nemendahópinn er í flestum tilfellum tiltölulega auðvelt að „mótivera“ en þau geta þurft stuðning við að raungera framtíðarsýn sína. Hvernig þarf ég að haga námi mínu til að geta í framtíðinni gert við bíla, læknað sjúka eða rekið kúabú? Hvað þarf ég að læra í stærðfræði til að komast inn í hagfræði, verkfræði eða íslensku í háskólanum? Hvaða tungumál er gott að kunna til að verða leiðsögumaður, þjónn eða skipstjóri? Það sem þessir nemendur hafa með sér er sterk áhugahvöt en löngu hefur verið sýnt fram á að áhugahvötin er eitt besta vopnið sem námsfólk hefur í fórum sínum – allt er hægt ef áhuginn er fyrir hendi.

Síðarnefndi hópurinn hefur ekki jafn fastmótaðar spurningar. Þau hafa ekki enn fundið sína fjöl og eru mis áhugasöm í leitinni. Þeirra spurningar snúast kannski fyrst og fremst um þá möguleika sem eru fyrir hendi en oft og tíðum skortir þau innsýn í „heim atvinnulífsins“ og vitneskju um þá möguleika sem í boði eru. Hvað gera píparar, bókarar eða hjúkrunarfræðingar í vinnunni? Hvernig líður dagur í lífi bifvélavirkja, félagsráðgjafa eða kennara?

Að leiðbeina án þess að stýra

Við skólafólkið getum að sjálfsögðu ekki svarað þessum spurningum fyrir nemendur okkar; til þess eru þær of flóknar og persónulegar. Kannski þær séu á pari við eilífðarspurninguna um tilgang lífsins? Það sem við getum hins vegar gert er að búa þeim fræjum sem í spurningunum nemenda okkar felast frjóan jarðveg, skapa námsumhverfi sem nærir forvitnina nægilega mikið til þess að upp vaxi blómabreiður og fagrir akrar. Það gerum við með því að vera sjálf opin og víðsýn, nota vel þau tækifæri sem bjóðast til að leiðbeina án þess að stýra, benda á tækifæri fremur en hindranir og opnar dyr í stað lokaðra.

Yfirvöld menntamála geta lagt sitt af mörkum með því að búa skólum landsins umgjörð þar sem áhersla er lögð á sjálfstæði og tækifæri til vaxtar. Þau þurfa að standa vörð um að sú þjónusta sem skólarnir veita sé á þeirra eigin forræði, að hún sé ekki grafin djúpt í iðrum gamaldags stofnanna sem sjúga til sín fé sem betur færi á að nýta til að auka og efla það sem þegar er gert vel í skólum landsins. Yfirvöld þurfa að sjálfsögðu að fylgjast vel með starfsemi skólanna og setja henni ramma, en hér gildir það sama og áður var nefnt: skólum getur þurft að leiðbeina en best fer á að þeir hafi sem mest frelsi til að móta námið og laga það að þörfum þeirra einstaklinga sem saman mynda skólasamfélagið á hverjum stað.

Þá er samráð og samstarf við þá aðila sem gæta hagsmuna stjórnenda og kennara í skólum landsins lykilþáttur í því að kerfið virki eins og skyldi. Kennarasamband Íslands og þau félög sem starfa innan vébanda þess eru lykilaðilar þegar kemur að því að skapa og þróa farsælt skólastarf.

Þannig mótum við framtíðina saman.

Höfundur er áfangastjóri í Borgarholtsskóla og formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.




Skoðun

Sjá meira


×