Körfubolti

Durant orðinn örvæntingarfullur og setur Brooklyn afarkosti: Þjálfarinn eða ég

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Durant vill losna við Steve Nash sem þjálfara Brooklyn Nets.
Kevin Durant vill losna við Steve Nash sem þjálfara Brooklyn Nets. getty/Jonathan Bachman

Kevin Durant vill ólmur komast frá Brooklyn Nets og hefur gripið til ansi örvæntingafullrar leiðar til að sú ósk hans rætist.

Samkvæmt frétt The Athletic fundaði Durant við eiganda Brooklyn, Joe Tsai, um helgina. Þar setti hann honum afarkosti og sagði að hann yrði að velja milli sín og þjálfara og framkvæmdastjóra Brooklyn, Steve Nash og Sean Marks.

Durant hefur ekki lengur trú á þeim Nash og Marks og tjáði Tsai það og að ef hann ætlaði að vera áfram hjá Brooklyn yrðu þeir að fara. Vondu fréttirnar fyrir Durant eru að Tsai steig fram á Twitter og lýst yfir stuðningi við þá Nash og Marks.

Durant gekk í raðir Brooklyn frá Golden State Warriors 2019. Hann skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við félagið að verðmæti tæplega tvö hundrað milljón Bandaríkjadala í fyrra.

Á ýmsu hefur gengið hjá Brooklyn síðustu ár og árangurinn er ekki í samræmi við stjörnufansinn. Á síðasta tímabili fór James Harden í fýlu og var skipt til Philadelphia 76ers fyrir Ben Simmons og Kyrie Irving missti af 29 leikjum þar sem hann vildi ekki láta bólusetja sig. Boston Celtics vann Brooklyn, 4-0, í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Durant, sem skoraði 29,9 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili, hefur meðal annars verið orðaður við Boston, Toronto Raptors, Phoenix Suns og Miami Heat.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×