Golf

Mickelson og Poulter meðal þeirra LIV-kylfinga sem eru farnir í mál við PGA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Mickelson hefur verið í vandræðum síðustu mánuði en hann er einn af þeim sem hoppaði á peningavagninn.
Phil Mickelson hefur verið í vandræðum síðustu mánuði en hann er einn af þeim sem hoppaði á peningavagninn. EPA-EFE/JUSTIN LANE

Kylfingarnir sem stukku á peningavagninn og sömdu um að spila á mótaröðinni hjá Sádi-Arabönum ætla nú í hart til að berjast fyrir keppnisrétti sínum á bandarísku mótaröðinni.

Bandaríska mótaröðin, PGA, hefur barist á móti uppkomu LIV Golf Invitational Series og meðal annars með því að útiloka þá kylfinga sem fara þangað yfir.

LIV-mótaröðin er á vegum fjársterkra aðila í Sádi-Arabíu og hefur boðið kylfingum gull og græna skóga fyrir að keppa hjá sér. Því fylgir aftur á móti fórnarkostnaður.

PGA-mótaröðin bannar nefnilega öllum LIV-kylfingum að keppa á sínu mótum og þar á meðal á risamótunum.

Phil Mickelson og Ian Poulter eru í þeim hópi og þeir eru líka meðal þeirra ellefu kylfinga sem hafa ákveðið að fara í mál PGA vegna umræddar útilokunar. Bryson DeChambeau er einnig búinn að setja nafn sitt á þennan lista.

Hópurinn heldur því fram að PGA sé að reyna að skaða golfferla þeirra með þessu banni.

Jay Monahan, yfirmaður PGA mótaraðarinnar, segir að þeir ætli ekki að gefa neitt eftir í þessu máli.

„Þessir bönnuðu kylfingar, sem eru núna starfsmenn mótaraðarinnar í Sádi-Arabíu, hafa gengið í burtu frá mótaröðinni okkar og vilja núna snúa aftur. Þetta er tilraun þeirra til að nota okkar mótaröð til að auglýsa sig og ná sér fría ferð á ykkar kostað,“ skrifaði Jay Monahan í bréfi til meðlima PGA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×