Skoðun

Bæjar­fé­lög á bið­listum

Gunnlaugur Már Briem skrifar

Ég var alltaf nokkuð lukkulegur að alast upp á landsbyggðinni, nánar tiltekið í Stykkishólmi og á Skagaströnd. En við nýlegan fréttaflutning kom fram að um 7.500 manns séu nú á biðlistum eftir ýmiskonar skurðaðgerðum og þar af rúmlega 1.700 manns sem bíða eftir liðskiptiaðgerðum miðað við tölur úr fréttum frá 1.apríl 2022. Ef þessar tölur eru settar í samhengi mætti því segja að samanlagður íbúafjöldi uppeldisstöðvana sé þessa stundina að bíða eftir liðskiptiaðgerð annaðhvort á hné eða mjöðm.

En hvað þýðir það að vera á biðlista ?

Það er einfalt og fjarlægt að setja fram tölur, en á bakvið þessar tölur eru vissulega einstaklingar. Þeir einstaklingar sem komnir eru á biðlista eftir t.d. liðskiptiaðgerðum eru allflestir með verulega skert lífsgæði. Lífsgæði skipta máli, og það sem nútíma heilbrigðisþjónusta snýst um að stóru leiti, ef við fráskiljum lífsbjargandi inngrip. Súkraþjálfarar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem hafa starfað með einstaklingum á biðlistum þekkja of vel sögurnar sem fólk segir með eftirsjá. Sögur um að það geti ekki leikið við barnabörnin sín, farið í ferðalög með vinum, sinnt áhugamálum, sofið óslitið eða eigi erfitt með að sinna vinnu.

Verkir eru nefnilega algengasta einkenni þeirra sem bíða eftir liðskiptiaðgerðum. Stöðugir verkir hafa ekki bara mikil áhrif á líkamlega líðan, heldur eru einnig áhrif á samfélagslegaþátttöku sem og atvinnuþátttöku. Þess fyrir utan vitum við að það eru sterk tengsl milli langvarandi verkja og andlegrar líðanar. En allt hefur þetta bæði mjög neikvæð áhrif á einstaklinginn og á sama tíma á samfélagið í auknum kostnaði og minni lífsgæðum.

Góðu fréttirnar eru þó að í mörgum tilfellum getum við gert svo margt annað heldur en bara að bíða. Við þurfum nefnilega líka að huga að þeim áhrifum sem biðtíminn hefur. Ef ekkert er að gert getur óvirk bið og tíminn valdið vöðvarýrnun, skertum afköstum hjarta og lungna og almennt lélegra ástandi vegna þess að við eigum erfiðara með líkamlega áreynslu, þol- og styrktarþjálfun.

Hvað getum við gert meðan við bíðum ?

Þjálfun og fræðsla fyrir aðgerðir hefur í mörgum tilfellum verulega jákvæð áhrif. Ekki bara á aðgerðina sjálfa, heldur einnig líðan, virkni og lífsgæði meðan beðið er, sem og að auðvelda og stytta endurhæfingartíma að aðgerð lokinni.

Ef við þurfum að bíða í ár eftir aðgerð þá ættum við að gera allt sem við getum til að hún heppnist eins vel og kostur er og ekki síður að lágmarka líkurnar á því að við þurfum að endurtaka biðlista leikinn.

Til þess að gera það ættu þeir sem lenda á biðlista að njóta leiðsagnar og þjónustu m.a. sjúkraþjálfara meðan á bið stendur sem og eftir aðgerð. Sjúkraþjálfara eru sú heilbrigðisstétt sem er sérhæfð í meðhöndlun stoðkerfiseinkenna og þjálfun þeirra sem hafa veikst eða slasast, og því mikilvægt að gott aðgengi sé tryggt fyrir alla.

Ekki er alltaf hægt að tryggja með þjálfun eða aðgerðum að við verðum verkjalaus með öllu eða aftur eins og þegar maður var þrítugur, en við getum og eigum að gera allt til þess að við fáum að njóta sem mest þess sem okkar aðstæður bjóða upp á.

Þó ég tiltaki sérstaklega áhrif þjálfunar á liðskiptiaðgerðir þá má vel heimfæra þessar áherslur yfir á mörg inngrip, eins og hjartaaðgerðir, krabbameinsaðgerðir og svo mætti lengi telja. Auk þess hefur þjálfun undir handleiðslu fagfólks áhrif á lengd legutíma inn á sjúkrahúsum okkur og samfélaginu til hagsbóta.

Eru biðlistar lögmál ?

Það getur verið eðlilegt að þurfa að bíða eftir ákveðinni þjónustu í einhvern tíma, enda eru til staðar viðmiðunarmörk um hvað getur talist ástættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu hjá Embætti landlæknis. Þar kemur m.a. fram að amk. 80 % einstaklinga ættu að komast í aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu. Okkur hefur því miður ekki tekist að uppfylla þau viðmið nema í fáum tilfellum.

Heimsfaraldurinn hefur sjáanlega haft neikvæð áhrif á biðlista eftir aðgerðum þar sem listinn hefur rétt um tvöfaldast á tveimur árum ef horft er til allra aðgerða í bið. Á sama tíma getum við ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að umræða um biðlista er ekki að koma fyrst upp á yfirborðið núna í kjölfar faraldursins. Ástæður þess eru eflaust margar og að hluta til í formi forgangsröðunar, fjárveitinga, mannauðs og aðstöðu. Meðfylgjandi er línurit yfir fjölda á biðlistum frá 2014 - 2021, þar sem við getum glöggvað okkur aðeins á þróun síðustu ára. Vert er að geta þess að sérstakt biðlistaátak var árin 2016 – 2018.

M.v. útgefnar tölur í júní ár hvert, eða næstu tölur sama ár þar sem júní tölur voru ekki aðgengilegar.

Ólíklegt er að biðlistar hverfi á næstu misserum. Við þurfum því að nýta það fagfólk, þekkingu og aðstöðu sem til staðar er, og tryggja gott aðgengi. Það er skylda okkar að forgangsraða verkefnum, fjármunum og tíma á þá vegu að hagsmunir og lífsgæði einstaklinga séu hvað mest.

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×