Handbolti

Tvö Íslendingalið fá sæti á HM félagsliða í handbolta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson munu reyna að verja heimsmeistaratitilinn.
Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson munu reyna að verja heimsmeistaratitilinn. Ronny Hartmann/picture alliance via Getty Images

Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Haukur Þrastarson munu allir taka þátt með liðum sínum í heimsmeistaramóti félagsliða í handbolta sem fram fer í október á þessu ári.

Ómar Ingi, Gísli Þorgeir og liðsfélagar þeirra í Magdeburg koma inn í mótið sem ríkjandi meistarar. Liðið tryggði sér sigur á mótinu með nokkuð öruggum fimm marka sigri gegn Barcelona í október á síðasta ári.

Þá tilkynnti alþjóðahandknattleikssambandið IHF hvaða tvö lið fengju svokallað „Wildcard“ sæti á mótinu í gærkvöldi. Liðin tvö eru nýkrýndir Evrópudeildarmeistarar Benfica og pólsku meistararnir í Lomza Industria Kielce, en Haukur Þrastarson leikur með pólska liðinu. Sigvaldi Guðjónsson er einnig á mála hjá Kielce, en hann er á leið til Kolstad í Noregi fyrir næsta tímabil.

Alls taka 12 lið þátt á mótinu. Þar á meðal eru lið á borð við Barcelona og egypsku meistarana í Al Ahly. Enn eiga þrjú lið eftir að bætast í hópinn, en afar ólíklegt verður að teljast að við Íslendingar munum eiga fulltrúa í þeim liðum. 

Þau lið sem eiga eftir að vinna sér inn þátttökurétt munu koma frá Norður-Ameríku, og tvö frá Sádí-Arabíu þar sem mótið verður haldið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.