Innlent

Konur með um 86 prósent af heildar­launum karla

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, formaður Kjaratölfræðinefndar.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, formaður Kjaratölfræðinefndar. vísir

Konur sem vinna fulla vinnu eru með um 86 prósent af heildarlaunum karla, en launamunurinn er mestur hjá ríkinu. Grunntímakaup hefur hækkað töluvert á þremur árum, eða um tæp 23 prósent.

Þetta kemur fram í vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar sem kynnt var í morgun. Í skýrslunni er fjallað um þróun efnahagsmála og launa frá apríl árið 2019 til janúar á þessu ári. Helstu niðurstöður eru þær að fjárhagsstaða heimilanna er óvenjusterk og tekjur háar í alþjóðlegum samanburði.

Laun kvenna hafa í flestum tilfellum hækkað meira en karla. Það skýrist af því að áhersla hefur verið lögð á að hækka lægstu launin og konur líklegri til að hafa lág laun.

„En ef við skoðum grunnlaunin t.d. þá er ekkert ýkja mikill munur á grunnlaunum karla og kvenna en það eykst þegar við förum að skoða heildarlaunin. Konur eru með um 86 prósent af heildarlaunum karla og þá erum við að tala um fullvinnandi einstaklinga,“ sagði Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, formaður Kjaratölfræðinefndar.

Minnstur launamunur hjá Reykjavíkurborg

Launamunur kynjanna er mestur hjá ríkinu.

„Þar erum við komin með 85 prósent af launum karla en hann er töluvert minni hjá Reykjavíkurborg þar sem konur eru 5 prósent lægri en karlarnir. Þær eru með 95 prósent af heildarlaunum karla, hjá Reykjavíkurborg.“

Grunntímakaup hefur hækkað töluvert á kjarasamningstímabilinu, eða um tæp 23 prósent. Hækkunin er mest hjá Reykjavíkurborg eða um þrjátíu prósent. Hluti af skýringunni má rekja til breytingar á vinnutíma.

„Vinnutímabreytingar geta verið að skýra alveg fjögur prósent af hækkuninni og meira í mörgum tilfellum líka.“

Samsetning heildarlauna.stöð2/grafík

Þeir sem vinna fulla vinnu voru með að jafnaði 823 þúsund á mánuði árið 2021.

„Töluvert mismunandi eftir því hvaða atvinnurekendur eiga í hlut. Það er lægra hjá sveitarfélögunum, í kringum 680 þúsund og hæst hjá ríkinu sem atvinnurekenda, 903 þúsund að jafnaði á mánuði.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×