Menning

„Hann er svolítið að skíta upp á bak í lífinu“

Elísabet Hanna skrifar
Ási áttar sig fljótlega á því að hann sé í hættu.
Ási áttar sig fljótlega á því að hann sé í hættu. Eva Schram

Haraldur Ari Stefánsson fer með hlutverk Ása í nýju hljóðseríunni Skerið sem kom út í sex pörtum hjá Storytel. Sjálfur ólst hann upp við að hlusta á útvarpsleikrit á kasettu með bræðum sínum fyrir svefninn en pabbi hans, Stefán Jónsson, hefur einnig leikið í nokkrum slíkum.

Sigraði Eyrað

Skerið er sería sem stóð uppi sem sigurvegari keppninnar Eyrað sem haldin er árlega á vegum Storytel. Þau Áslaug Torfadóttir og Ragnar Egilsson eru handritshöfundarnir sem skiluðu inn Skerinu. Serían fjallar um Ása sem vaknar eftir fyllerí á ókunnum slóðum. Hann hefur ekki grænan grun um það hvernig hann komst þangað en áttar sig fljótlega á því að hann sé í hættu.

Tæknin mögnuð

Sóla Þorsteinsdóttir, framkvæmdarstjóri Storytel segir fyrirtækið sífellt vera að prófa sig áfram með hljóðformið: „Við höfum lengi verið með drauma um að sjá hvernig við getum nýtt þetta form,“ segir hún. Hún bætir við að þau séu gríðarlega stolt af afrakstrinum og það sé gaman að sjá hvernig tæknin blandast saman við söguna með stórkostlegum hljóðheim sem var búinn til í kringum söguna. 

Haraldur Ari fer með hlutverk Ása í hljóðseríunni.Eva Schram

Haraldur Ari er Ási

Blaðamaður Lífsins hafði samband við Harald Ara sem fer með hlutverk Ása og fékk að heyra meira um verkefnið: 

Hvernig er að leika í hljóðseríu?

Það eina sem maður hefur er röddin þannig það þarf allt að koma fram í textanum og hlustendur þurfa að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín. Ég gerði einu sinni útvarpsleikrit á RÚV , eiginlega unglinga leikrit svo ég var með smá reynslu af þessu formi. Ég lærði líka leiklist í London og þar fór ég í sérstakan útvarps áfanga. Þetta er mjög skemmtilegt ferli með mikið af texta sem maður þarf að treysta og leggja sig allan í að koma vel til skila. 

Hvernig fóru tökurnar fram?

Við vorum öll í sama upptökuklefanum en svipað og með bíómyndir og seríur var allt tekið upp í mismunandi tímaröð. Fyrst tókum við upp senurnar sem allir eru í og svo fækkar hlutverkunum eftir því sem líður á senurnar í upptökuferlinu.

Tengdir þú strax við Ása?

Ég veit ekki hvort að ég tengdi við hann beint en ég kannaðist við týpuna. Hann er svona gaur sem er svolítið mikið fyrir sopann og tekur alltaf rangar ákvarðanir. 

Hann er svolítið að skíta upp á bak í lífinu almennt.

Verður sagan færð á svið eða skjáinn í framtíðinni?

Ekki svo ég viti til en ég myndi ekki segja nei við því að fara til Tenerife og taka upp seríu ef tækifærið kæmi upp. 

Ég myndi ekki hata það.

En mér finnst frábært hvað ungt fólk er byrjað að hlusta mikið á bækur og er að ná að kynna sér efni í þessu formi sem það hefði mögulega ekki kynnt sér á annan hátt. Sjálfur komst ég nýlega upp á lagið með það að hlusta á íslenskar bækur og er búinn að ná að hlusta á margar slíkar. 


Tengdar fréttir

„Ég er stærsti aðdáandi hennar“

Felix Bergsson og tengdadóttir hans Þuríður Blær Jóhannsdóttir tala saman inn á sögurnar um Ævintýri Freyju og Frikka sem Felix sjálfur er rithöfundurinn að og segir viðtökurnar hafa farið vonum framar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×