Skoðun

Skatt­píning barna

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Á Íslandi er lagður hærri tekjuskattur á börn en fullorðið fólk. Og öfugt við þau fullorðnu fá börn engan persónuafslátt. Í þessari grein er lagt til að þessu verði breitt: Að börn verði skattlögð eins og fullorðið fólk, að þau fái persónuafslátt og að persónuafsláttur sé nýtanlegur innan fjölskyldunnar eins og á við um persónuafslátt sambúðarfólks. Auk þess er lagt til að sá hluti persónuafsláttar sem ekki nýtist til skattalækkunar sé greiddur út.

Greinin skýrir hvernig skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna færðu skattbyrði frá hinum efnamestu til hinna efnaminni og einkum þeirra sem hafa miðlungs eða lægri tekjur. Þetta ásamt hrörnun vaxta- og barnabóta hefur dregið úr efnahagslegum styrk barnafjölskyldna.

Þetta er heimskuleg stefna, því allt samfélagið hefur hag af því að barnafjölskyldur standi sterkt. Skattkerfið á þannig að lyfta byrðum ag barnafjölskyldum og bæta hag þeirra sem mest.

Ég nýlegri grein lagði ég til að börn fengju atkvæði í þingkosningum til að styrkja stöðu barnafjölskyldna. Hér legg ég til að börn hafi sama rétt og fullorðið fólk innan skattkerfisins. Saman er þetta því krafa um að hætt verði að skerða réttindi barna, að hið opinbera komi fram við þau eins og aðrar manneskjur þegar ekki þarf að vernda þau sérstaklega vegna aldurs. Þau rök eiga sannarlega ekki við þegar við tökum af þeim atkvæðaréttinn né þegar við skattleggja þau þyngra en annað fólk.

Börnin eiga ekki að borga hærri skatta

Börn fimmtán ára og yngri eru í sérstökum skattflokki. Þau hafa frítekjumark upp á 150 þús. kr. á ári og borga eftir það 6% skatt. Við sextán ára aldurinn njóta þau fyrst persónuafsláttar og við það færist frítekjumarkið upp í rúmlega 2.057 þús. kr. árstekjur, en 31,45% skattur leggst á tekjur umfram þá upphæð.

Hvernig kemur þetta út fyrir börnin? Segjum að fimmtán ára barn leiki í vinsælu leikriti og fái fyrir það 2 m.kr. laun yfir árið, 166 þús. kr. á mánuði. Ef barnið borgaði skatt eins og fullorðinn skattborgari myndi það engan skatt borga, þetta eru tekjur undir skattleysismörkum. En þar sem barnið er ekki skattborgari með persónuafslátt heldur er skattlagt sem barn borgar það tæplega 110 þús. kr. í skatt af þessum 2 milljónum.

Það er ekki fyrr en barnið er komið með árstekjur upp á 2,5 m.kr. eða um 208.500 kr. á mánuði sem það borgar minni skatt en ef það væri fullorðinn einstaklingur. Það þarf ekki að taka fram á fá börn erum með slíkar tekjur, ef einhver.

Hverjum datt þessi vitleysa í hug? Að taka meiri skatt af börnum sem hafa lagar tekjur, sem á við um flest börn, en minni skatt af börnum sem eru með tekjur nærri lágmarks lífeyri og þar yfir?

Barn sem er með 100 þús. kr. á mánuði borgar rúmar 60 þús. kr. í skatt á ári meðan fullorðin manneskja með þessar tekjur borgaði ekkert. Og getur fært maka sínum tæplega 270 þús. kr. í skattaafslátt þar sem flytja má ónýttan persónuafslátt milli maka.

Börn og foreldrar þeirra ættu því strax að gera kröfu um að börn verði skattlögð eins og fullorðið fólk. Það er til skammar að skattleggja börn meira en fullorðna.

Fjölskyldur eru með sameiginlegan fjárhag

Börn eru ekki fjárráða fyrr en 18 ára. Þau verða hins vegar sjálfstæðir skattborgarar 16 ára. Þessi tvö ár eru börnin því ekki með sjálfstæðan fjárhag en eru skattlögð eins og fullorðið fólk. Segja má að þau séu með sameiginlegan fjárhag með foreldrum sínum, en skatturinn tekur ekki tillit til þess. Makar geta flutt ónýttan persónuafslátt á milli sín, en börn geta ekki flutt sinn ónýtta persónuafslátt til foreldra sinna og lækkað þar með skattgreiðslur fjölskyldunnar.

Ég hef ekki upplýsingar um hversu mikið af ónýttum persónuafslætti barna fellur niður árlega vegna þessa, en miðað við svör við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar fyrir nokkrum árum getum við áætlað að þetta verði um tveir milljarðar króna í ár.

Björn fékk sundurgreindan ónýttan persónuafslátt áranna 2016 og 2017 skipt eftir aldurshópum. Neðst var rúmlega framhaldsskólaaldurinn, fólk á aldrinum 16-20 ára. Framreiknað má ætla að þessi hópur sé með ónýttan persónuafslátt upp á tæplega 4,9 milljarða króna í ári. Þessi hópur er 7,6% af skattborgurum en á um 46,2% af öllum ónýttum persónuafslætti. Út frá þessum upplýsingum má varlega áætla að hlutur barna 16 og 17 ára af ónýttum persónuafslætti sé um tveir milljarðar króna.

Önnur krafa barna og fjölskyldna ætti sú, að vera börnum og foreldrum verði leyft að nýta sín á milli ónýttan persónuafslátt. Ef mörkin eru sett við 18 ára aldur er aðgerðin veigalítil fyrir heildina en mikilvæg fyrir fjölskyldur með börn á þessum aldri. Ef leysa ætti málið innan persónuafsláttar myndi duga að lækka persónuafslátt allra um 550 kr. á mánuði til að bæta stöðu barnafjölskyldna með 16 og 17 ára unglinga á heimilinu.

En auðvitað má afla tekna fyrir þessari aðgerð með öðrum hætti. Það má til dæmis hækka fjármagnstekjuskatt. Það er mjög sérstakt að sá sem hefur tekjur af auði borgi lægri skatt en sá sem hefur tekjur af vinnu sinni. Skref í áttina gæti verið að setja hátekjuþrep inn í fjármagnstekjuskatt, en slíkt myndi skila miklu meiri fjármunum en þarf til að gera persónuafslátt nýtanlegan milli barna og foreldra innan núverandi kerfis.

Barnabætur eru alltaf lægri en persónuafsláttur

Leggjum þessar tvær sjálfsögðu kröfur saman: Í fyrsta lagi að börn hafi sömu stöðu innan skattkerfisins eins og fullorðið fólk og í öðru lagi að persónuafsláttur sé nýtanlegur innan fjölskyldna. Þá værum við komin með kerfi sem skaraðist barnabótakerfið og í raun yfirtrompa það.

Í dag er hámarks barnabætur tæplega 37 þús. kr. á mánuði hjá sambúðarfólki og tæplega 48 þús. kr. hjá einstæðu foreldra. Þetta er miðað við barn númer tvö sem er yngra en sjö ára. Barnabætur eru lægri með öðrum börnum.

Hámarksbætur eru aðeins borgaðar til tekjulágra fjölskyldna. Bæturnar byrja að skerðast við 379 þús. kr. skattskyldar tekjur á mánuði hjá einstæðu foreldri og tvöfalda þá upphæð hjá sambúðarfólki. Skerðingarmörkin liggja því við lægstu laun, eru aðeins 11 þús. kr. hærri en lágmarkstekjutrygging. Það er því aðeins örlítið brot foreldra sem á rét á fullum barnabótum, það er eins og kerfið sé smíðað á auglýsingastofu til að lýta út fyrir að vera betra en það er.

Og skerðingin er brött. Par með 630 þús. kr. á mánuði á mann fær engar bætur með einu barni, missa barnabætur með tveimur börnum þegar tekjurnar fara yfir 670 þús. kr. á mann og með þremur börnum þegar tekjurnar fara yfir tæpleg 688 þús. kr. á mann. Og á þessari leið skerðast bæturnar bratt, fljótlega er upphæðin orðin mjög veigalítil.

Hjá einstæðum foreldrum falla barnabætur með einu barni niður við um 820 þús. kr. í mánaðartekjur, en við 950 þús. kr. ef barnið er yngra en sjö ára. Bæturnar falla niður með tveimur börnum við um 1.060 þús. kr. og með þremur börnum 1.120 þús kr. skattskyldar tekjur á mánuði.

Barnabætur á hvert barn eru alltaf lægri en persónuafsláttur. Að öllu öðru óbreyttu myndi hagur allra barnafjölskyldna því batna ef barnabætur yrðu felldar niður á móti upptöku persónuafsláttar til barna. En hagur tekjulægsti fjölskyldnanna myndi batna minna en hinna. Og hann gæti versnað ef ónýttur persónuafsláttur yrði ekki greiddur út.

Forsendur fyrir að fella þessa kerfi saman er því að ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út.

Og það ætti einmitt að vera þriðja krafa barnafjölskyldna: Að ónýttur persónuafsláttur barna sé greiddur út.

Borga á út ónýttan persónuafslátt

Þá getum við áætlað kostnaðinn við þessar þrjár kröfur.

Fullur persónuafsláttur allra núverandi skattgreiðenda er um 195,3 milljarðar króna. Við tökum persónuafslátt 16 og 17 ára barna frá og þá standa eftir um 189,4 milljarðar króna.

Út frá svari við fyrirspurn Björn Leví getum við áætlað að ónýttur persónuafsláttur fullorðinna, 18 ára og eldri sé um 10 milljarðar. Nýttur persónuafsláttur fullorðinna er þá um 179,6 milljarðar króna.

Fullur persónuafsláttur til tæplega 75 þúsund barna 17 ára og yngri er um 48,2 milljarðar króna. Frá þeirri upphæð dragast núverandi barnabætur upp á tæplega 14,0 milljarða. Eftir stendur þá kostnaður upp á 34,2 milljarð króna.

Ef við myndum vilja jafna þetta innan persónuafsláttarins myndi hann lækka almennt um 3.626 kr. Skattur á einstakling myndi hækka um þá upphæð en um 7.252 kr. á barnlaust par. Skattur á hjón með tvö börn myndi hins vegar lækka um allt að 93 þús. kr. á mánuði.

Einstætt foreldri með eitt barn yngra en sjö ára og tekjur undir 379 þús. kr. kæmi út á sléttu. Ef barnið er eldra en sjö ára og ef börnin eru fleiri kemur þessi fjölskylda betur út. Þetta sýnir hversu lágt viðmið núverandi kerfis liggja. Það er aðeins yngsta barna fátækustu móðurinnar sem fær stuðning sem jafngildir almennum persónuafslætti fullorðinna.

En auðvitað er engin ástæða til að leysa kostnað við útgreiðanlegan persónuafslátt til allra barna innan almenns persónuafsláttarins. Það má vel réttlæta óbreyttan persónuafslátt til allra. Þá væri kjarabót sambúðarfólks með tvö börn allt að tæpum 108 þús. kr. á mánuði, tæplega 1,3 m.kr. á ári.

Eðlilegast er að sækja auknar skatttekjur til þeirra sem nutu skattalækkana nýfrjálshyggjuáranna, fjármagnseigenda og auðfólks. Það má gera með hækkun efri þrepa tekjuskatts en enn frekar með hátekjuþrepi í fjármagnstekjuskatt. Og með auðlegðarskatti á eignir umfram hálfan milljarð eða svo. Rökin fyrir slíkri skattheimtu á efnamesta fólkið er ekki aðeins tekjuöflun heldur tekjujöfnun. Aukin ójöfnuður vegna skattabreytinga nýfrjálshyggjuáranna var skaði í sjálfum sér. Ójöfnuður grefur undan réttlæti innan samfélagsins, afli hagkerfisins og trausti á stofnanir þjóðfélagsins.

Skattabreyting nýfrjálshyggjunnar flutti skattbyrði frá efnameira fólki og eldra yfir á efnaminna fólk og yngra. Og þar með frá barnlausu miðaldra fólki yfir á barnafjölskyldur.

Útgreiðanlegur persónuafsláttur til barna er liður í að leiðrétta þessa skekkju.

Jafna á milli aldursskeiða

Grundvöllur velferðarríkisins er ekki aðeins öryggisnetið sem grípur þau sem ekki geta aflað sér tekna vegna aldurs, fötlunar, veikinda eða af öðrum ástæðum. Og ekki aðeins gjaldfrjálst heilbrigðis- og menntakerfi þessu til viðbótar né heldur skattkerfi sem jafnar tekjur milli hinna efnameiri og efnaminni. Mikilvæg stoð undir velferðarríkinu er líka að jafna tekjur milli aldursskeiða.

Þegar við verðum gömul erum við með litlar eða engar atvinnutekjur og þurfum því stuðning úr opinberum sjóðum. Þegar við erum börn höfum við heldur ekki tekjur en þurfum umönnun, menntun og heilsugæslu. Og þegar fólk eignast börn er það almennt á lægri launum en þau sem eldri eru, skuldar meira, ber hærri húsnæðiskostnað og er með þyngri framfærslu vegna barnanna.

Af þessum sökum er skattkerfi velferðarríkja byggð upp annars vegar af skatti sem hækkar eftir því sem tekjur aukast en hins vegar á tilfærslukerfum til að jafna byrðarnar eftir því sem æfinni vindur fram. Fólk borgar hærri skatta eftir því sem tekjur verða hærri og eignir meiri. Og fólk fær greitt út úr kerfinu eftir því sem framfærslan er þyngri. Fólk með sömu tekjur og sömu skattgreiðslur er þannig með lægri nettóskatt á yngri árum vegna húsnæðis- og barnabóta en hærri nettóskatt af sömu tekjum þegar börnin eru flutt að heiman og húsnæðislánin uppgreidd.

Nýfrjálshyggjan er hugmyndakerfi sem stefnt var gegn velferðarríkinu. Hún vildi veikja öryggisnetið með þeim rökum að það drægi úr vinnuframlagi og framtakssemi. Hún vildi afnema gjaldfrjálsa mennta- og heilbrigðisþjónustu með þeim rökum að slíkt eyddi kostnaðarvitund fólks. Nýfrjálshyggjan dró úr og vildi eyða stighækkandi skattprósentu með þeim rökum að slíkt væri óréttlátt, að það væri ekki hlutverk ríkisvaldsins að jafna aðstöðu milli fólks. Og hún vildi draga úr og afnema tilfærslukerfin með þeim rökum að óþarfi væri að ríkissjóður styrkti fólk vegna húsnæðiskaupa, húsleigu eða barna sem ekki þyrfti tilfinnanlega á stuðningi að halda. Nýfrjálshyggjan hafnaði hlutverki ríkisins í að jafna út framfærslu- og tekjumun milli aldursskeiða eins og hún hafnaði hlutverki ríkisins í að jafna tekjur milli tekjuhópa. Nýfrjálshyggjan er á móti jöfnuði.

Skattkerfið sem við búum við í dag er þannig í grunninn kerfi sem átti að verða grunnur velferðarríkis en eftir eyðileggingu nýfrjálshyggjunnar er kerfið orðið að miklum óskapnaði. Sem birtist til dæmis í háum jaðarskatti hinna efnaminni en lágum jaðarskatti hinna efnameiri, eins öfugsnúið og það hljómar.

Lækka á jaðarskatt hjá hinum efnaminni

Tekjutenging tilfærslukerfanna leiðir til þess að tekjulægsta fólkið borgar mest í skatt og skerðingar af hverri nýrri krónu sem það aflar. Við þekkjum dæmin af öryrkjum sem greiða 76% í skatt og skerðingar af hverri nýrri krónu sem þeir afla.

En við sjáum líka háan jaðarskatt líka hjá barnafjölskyldum. Tökum dæmi af pari sem á tvö börn, þ.a. annað yngra en sjö ára. Annað hinna fullorðnu hefur verið í námi en hitt á vinnumarkaði með miðgildi heildarlauna verkafólks, sem var 593 þús. kr. á mánuði í fyrra en ætti að vera núna um 618 þús. kr. með launahækkunum 1. janúar og 1. apríl. Parið býr í 76 fermetra leiguíbúð og greiðir tæplega 217 þús. kr. í húsaleigu, sem er meðalverð á höfuðborgarsvæðinu. Hvað gerist þegar það fullorðna sem var í námi fer út á vinnumarkaðinn og fær heildarlaun sem eru við neðri fjórðungsmörk verkafólks, um 517 þús. kr.

Af þessum nýju 517 þús. kr. fara rúmar 164 þús. kr. í tekjuskatt og útsvar, tæpar 37 þús. kr. fara í tekjuskerðingu á barnabótum, tæpar 50 þús. kr. í tekjuskerðingu húsnæðisbóta og rúmar 24 þús. kr. í lífeyrissjóð og félagsgjöld í verkalýðsfélag. Eftir standa í aukið ráðstöfunarfé rétt rúmar 242 þús. kr. eða 46,9% af nýju tekjunum. Að teknu tilliti til skerðinga og gjalda er jaðarskatturinn á þessa nýju innkomu 53,1%.

Til samanburðar er jaðarskattur hæstu atvinnutekna 46,25%. Og jaðarskattur auðugasta fólksins, sem er fyrst og fremst með fjármagnstekjur, er aðeins 22%.

Það er því ekki bara að nýfrjálshyggjan hafi flutt skattbyrði af hinum efnameiri til hinna efnaminni heldur færði hún líka hæstan jaðarskatt til þeirra sem eru berjast fyrir að brauðfæða sig og fjölskyldu sína.

Með því að gefa börnum útgreiðanlegan persónuafslátt myndi þessi hái jaðarskattur lækka. Ef við miðum við óbreyttan persónuafslátt myndi afkoma fjölskyldunnar batna um tæplega 87 þús. kr. og jaðarskatturinn á nýjar tekjur verða 46,1%.

Stuðningur við börn á að ná til allra barna

Ein afleiðing skattabreytinga á nýfrjálshyggjuáranna var að það fjölgaði í þeim hópi sem upplifði sig hafa lítinn hag af skattgreiðslum. En þetta er ekki aðeins afleiðing heldur líka forsenda breytinganna og markmið nýfrjálshyggjunnar. Mig langar að skýra þetta nánar.

Fyrir nýfrjálshyggju gat flest fólk séð í hendi sér að það hafði hag af tekjujöfnun skattkerfisins og gjaldfrjálsri opinberri þjónustu. Miðaldra fólk með góðar millistéttartekjur borgaði skatt, en fékk á móti ókeypis þjónustu í heilbrigðis- og menntakerfum og vissi að tekjujöfnunar áhrif tilfærslukerfanna höfðu létt undir með þeim á yngri árum, eins og þau gerðu nú gagnvart börnum þeirra. Og þessi kerfi myndu aftur létta undir með þeimá efri árum. 99% fólks gat séð í hendi sér að miðað við meðalævilengd, meðalgott heilsufar, meðaltalsþörf fyrir menntun og önnur grunnkerfi samfélagsins kæmi það nokkuð vel út úr samskiptum sínum við ríkið. Það nyti betra lífs með samtryggingu ríkisins en án hennar, eitt og óstutt.

Þetta átti hins vegar ekki við um 1% auðugasta fólksins. Í raun þurfti það ekki á samtryggingu ríkisvaldsins að halda. Það gat keypt sér menntun og heilbrigðisþjónustu fyrir eigið fé og það átti nógu digra sjóði til að mæta áföllum. Það leit á skattgreiðslur sem tapað fé, kallaði þær ofbeldi. Það lét af hendi peninga en fékk ekkert í staðinn sem það gat ekki reddað sér um sjálft. Nema þá kannski löggæslu og landvarnir.

Með því að hefja gjaldtöku innan heilbrigðis- og menntakerfanna og tekjutengja tilfærslukerfin gat auðugasta fólkið fjölgað þeim sem töldu sig lítið græða á því að borga skatta. Fólk með góðar millistéttartekjur borgaði skatta en þurfti svo að greiða fyrir þá þjónustu sem skattarnir áður stóðu undir og fékk auk þess ekkert út úr tilfærslukerfunum. Markmiðið var að grafa undan grunni velferðarríkisins svo það þjónaði lítið og illa velstæðu fólki, ekki bara hinum allra auðugustu heldur velstæðu millistéttarfólki.

Og það var planið; að fjölga þeim sem töldu sig ekki græða á háum sköttum, tilfærslum og gjaldfrjálsri opinberri þjónustu. Hin auðugustu vissu að þau þurftu ekki að ná helming fólks yfir þessa línu, líklega myndi duga að ná 10% fólks á þeirra band til að byrja niðurbrot velferðarríkisins. Andstaða 10% best setta fólksins, þess sem hafði mest völd og áhrif innan samfélagsins, myndi duga til að hefja niðurbrotið og eftir því sem það næði lengra myndi fjölga í hópnum sem hafnaði velferðarríkinu. Þegar um fjórðungur væri kominn um borð, allt valdamesta fólk landsins, þá væri ekki aftur snúið. Velferðarríkið sem byggt var upp á síðustu öld eftir kröfum verkalýðshreyfingar og skipulagðra almannasamtaka myndi falla. Það var markmið nýfrjálshyggjunnar.

Líklega eru Bandaríkin komin fram yfir þennan punkt, fram yfir point of no return; en við nálgumst hann hratt. Aðgerðir til að verja velferðarríkið ættu því ekki aðeins að snúa að því verja öryggisnetin og afkomu hinna verst settu; heldur að verja gangvirki velferðarríkisins, samtryggingarkerfið og tekjujöfnun millu æviskeiða. Mikilvægur partur þess er að öll börn njóti barnabóta, eða persónuafsláttar í okkar dæmi. Það á ekki að tekjutengja barnabætur.

Tekjujafna á með skattlagningu en ekki bótum

Tekjujöfnun milli tekjuhópa á að fara fram í gegnum skattþrep, skattprósentu og persónuafslátt en ekki tilfærslukerfin. Tilfærslukerfunum er ætlað að jafna framfærslubyrði milli æviskeiða. Þetta eru tvær stoðir velferðarríkisins. Aðrar eru öryggisnetið sem grípur fólk í tímabundnum eða langvarandi vanda og svo gjaldfrjáls opinber þjónusta sem er rekin fyrir skattfé.

Því miður höfum við snúið frá velferðarríkinu sem bætti hag fjöldans. Við stefnum að alræðisríki hinna fáu ríku, þar sem auður er forsenda þess að lifa áhyggjulausu lífi, við öryggi og trygga framfærslu.

Góð leið til að stíga á bremsuna og byrja að beygja af þessari háskabraut er að barnafjölskyldur nái fram eftirfarandi kröfum:

  1. Börn séu ekki skattlögð umfram fullorðið fólk
  2. Börn fái persónuafslátt
  3. Persónuafsláttur nýtist innan fjölskyldna, ekki bara milli maka
  4. Ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út

Ég myndi síðan bæta við kröfu um að börn fengju atkvæðisrétt í öllum kosningum, atkvæði sem þau geta sjálf notað eða foreldrar í umboði barna sinna.

Eitt einkenni nýfrjálshyggjutímans er að fjárhagsleg staða ungs fólk versnaði í samanburði við eldra fólki, og þar með staða barnafjölskyldna. Ástæðan var fyrst og fremst skattabreytingar sem bættu hag hinna eldri. Þetta var gert með því að draga úr tekjujöfnun skattstigans, með afnámi eignaskatta sem eldra fólk borgaði umfram yngra og með hrörnun tilfærslukerfa sem áður léttu skattbyrði yngra fólks.

Leiðin frá þessu er ekki að snúa aftur til fyrri tíðar heldur að stíga ákveðnari skref til að styrkja rétt og fjárhag barna. Og þar með barnafjölskyldna.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×